138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af lokaorðunum hjá hv. þingmanni. Ég held að ég hafi verið skammaður fyrir fátt jafnmikið og það þegar við fórum í þá vegferð að vinna með ríkisstjórninni, af fulltrúum get ég sagt, þeim sem voru skynsemisöflin í þessu máli, að búa til fyrirvarana. Við vissum alveg að það mundi ekki vera vænlegt til pólitískra vinsælda. Við greiddum atkvæði með öllum breytingartillögum um fyrirvarana, en við gerðum ekki þennan samning, virðulegi forseti. Samningurinn í júní, júní-samningurinn, var gríðarlega slæmur. Við bárum ekki ábyrgð á honum og það hefði verið betra, virðulegi forseti, ef menn hefðu, ný ríkisstjórn, kallað alla aðila að til að koma að þeim samningaviðræðum. Það hefði verið betra.

Brussel-viðmiðin voru grundvöllurinn að þessu. Þriðji þátturinn í Brussel-viðmiðunum var sá að ef ekki næðist saman, því að gert var ráð fyrir því, yrðu kallaðar að stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. Það var aldrei gert.

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir ákveðnu atriði í málflutningi hv. þingmanns sem ég held að sé meinsemdin hjá Samfylkingunni, að þeir eru búnir að telja sér trú um það að við berum ábyrgð á þessari Evróputilskipun. Grunnurinn bak við Evrópusambandið er sá að menn eru að vinna saman, menn bera ábyrgð á þessu saman. Það er auðvitað engin glóra í því að Kaupþingsútibúin séu eitthvað sem við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af meðan útibúin eða starfsstöðvarnar í Hollandi og Bretlandi eru allt í einu orðnar okkar vandamál og meira að segja viðkomandi ríkisstjórnir geta bara sett sérreikning á það. Ef þetta er ekki evrópskt mál, (Forseti hringir.) það sem Evrópusambandið bjó til, hvað er þetta þá? Þetta er ekki bara okkar mál. Það er rangt (Forseti hringir.) að leggja þetta þannig upp hjá hv. þingmönnum að við berum ábyrgð á (Forseti hringir.) þessari Evróputilskipun sem við svo sannarlega bjuggum ekki til.