138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man eftir fundum með hæstv. núverandi fjármálaráðherra þegar hann sat með mér í utanríkismálanefnd. Ég hygg að ég og hæstv. fjármálaráðherra munum það álíka vel að á þeim tíma héldum við að umfang þeirra krafna sem að okkur gætu beinst væri u.þ.b. 75 milljarðar. Það var meðaláherslan okkar um það hvaða skuldbindingar gætu fallið á íslenska þjóð vegna Icesave. Ein mikilvæg forsenda hafði ekki verið tekin með í reikninginn, hún var sú að vextir eru ekki forgangskrafa í búið. Telur hæstv. fjármálaráðherra það engu skipta þegar síðan kemur í ljós, við nánari vinnslu málsins, að við sitjum mögulega uppi með nokkur hundruð milljarða viðbótarkröfur? Telur hann að það eigi ekki að hafa nein áhrif á afstöðu okkar hér á þinginu til þess hvernig leiða eigi málið til lykta? Er þetta bara lítil staðreynd sem engu máli skiptir í heildarsamhengi hlutanna? Eða er þetta nokkur hundruð milljarða króna krafa sem skiptir íslenska skattgreiðendur miklu máli og þá sérstaklega í ljósi þess (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin sjálf skrifar það inn í fyrirliggjandi frumvarp (Forseti hringir.) að við teljum okkur ekki hafa neina lagalega skuldbindingu til að fallast á þessa ábyrgð?