138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðu hennar þó að ég hafi ekki verið sammála henni og fullyrðingar um að EES-samningurinn sé í hreinu uppnámi eru alveg hreint dæmalaus málflutningur enda hefur það oft komið fram að svo er ekki.

Það kom fram í máli þingmannsins að hún telji að stjórnarandstaðan líti svo á að vandinn hverfi frá okkur höfnum við Icesave-samningnum með þessu frumvarpi. Það er rangt því að við höfum aldrei talað með þeim hætti. Ég hef hins vegar heyrt á máli þingmanna Samfylkingarinnar hér í þessum sal eða fyrir utan salinn að þeir telja að Icesave-skuldbindingin hverfi þegar við verðum neydd inn í Evrópusambandið, þegar þeir eru komnir með okkur þangað inn. Þannig að við skulum hafa það á hreinu hvað hverfur og hvenær.

Mig langar að spyrja þingmanninn út af því að það kom fram í máli hennar að Bretar og Hollendingar muni gera á okkur ýtrustu kröfur: Hverjar eru þessar ýtrustu kröfur að mati þingmannsins?