138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að leysa Icesave-deiluna á þann hátt sem stjórnarandstaðan leggur til hér, þ.e. að vísa málinu frá og hefja viðræður á ný við Breta og Hollendinga. Séu þeir ekki tilbúnir til viðræðna við okkur þurfa þeir að sækja mál sitt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan Hæstarétti. Það vilja Bretar og Hollendingar að sjálfsögðu ekki því að hér á landi gilda íslensk lög en ekki bresk og þá þyrfti dómstólakerfið á Íslandi að taka tillit til dóms Evrópudómstólsins gegn Þýskalandi þar sem fram kom að ekki væri ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðum, þannig að það sé alveg á hreinu.

Mér skildist á svari hv. þingmanns, og vildi ég gjarnan fá það betur útskýrt hjá henni í seinna andsvari, að hámarkskröfur sem þeir geta einhvern tíma rukkað okkur um séu 20.887 evrur á hvern reikning, á hvern banka, á hverja innstæðu og þá er það á hverja kennitölu hjá Bretum og Hollendingum. Ef þingmaðurinn er að halda því fram að Bretar og Hollendingar geti komið hingað og sótt á okkur (Forseti hringir.) þær fjárskuldbindingar að það sé líka það sem þeir tóku sjálfir ákvörðun um að greiða aukalega innstæðueigendum sínum þá er það rangt.