138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi lánshæfismatið hafa matsfyrirtækin hreinlega gefið það út að það muni hafa jákvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins ef gengið verður frá þessum skuldbindingum. Þetta kemur fram í minnisblaði Seðlabankans, bæði frá því í sumar og eins nú á haustdögum.

Ég held líka að það sé augljóst að ef þjóð situr undir þeim ámælum að hún standi ekki við skuldbindingar sínar eru ekki miklar líkur á því að hún skori hátt þegar lánshæfi er metið. Hver vill lána þjóð sem er líkleg til þess að standa ekki við lánasamninga? (Gripið fram í.)

Varðandi það hvort ég telji að ríkin hafi staðið jafnfætis þá var ég náttúrlega ekki við samningaborðið en ég álít (Forseti hringir.) að þrátt fyrir þrönga og erfiða stöðu höfum við staðið jafnfætis, já.