138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir ræðu hans. Hann kemur alltaf með nýjar áherslur inn í ræður sínar þrátt fyrir fullyrðingar stjórnarflokkanna um annað.

Hér féllu orð áðan frá hv. þingmanni stjórnarflokkanna, að ekki hefðu fengist betri vextir á þessa hörmungarsamninga. Ég gekk hér fram hjá ræðustólnum og minnti þingmanninn á að það eru svo hagstæðir vextir að það eru hvorki meira né minna en 100 milljónir á dag. Ekki nóg með að það byrji að tikka um næstu áramót, nei, það byrjaði að tikka inn á skuldina okkar 1. janúar 2009, fyrir einu ári þegar þetta ár er á enda eftir þrjá daga. Þessir samningar eru ömurlegir. Það skal alltaf hanga yfir ríkisstjórninni að þetta eru þeir verstu samningar sem komið hafa til landsins enda er dæmalaust hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málunum.

Við í stjórnarandstöðunni sitjum undir þeim hótunum að samþykkjum við ekki frumvarpið og verði það ekki að lögum, um ríkisábyrgð sem enginn veit hvað stendur á bak við, því að einungis skilanefnd Landsbankans hefur aðgang að eignasafni Landsbankans. Fjárlaganefnd var í tvígang bannað að sjá þessa útreikninga enda alveg ljóst hvað liggur fyrir, staða Landsbankans er mjög slæm.

Það er alltaf verið að hóta því að þetta gjaldfalli allt á okkur ef við göngumst ekki við þessu frumvarpi. Og þá er alltaf verið að tala um stóra pakkann, allt sem Bretar og Hollendingar tóku upp hjá sjálfum sér að borga umfram 20.887 evrur. Í millitíðinni gerist það að Evrópusambandið setur nýja reglugerð sem skilgreinir það að innstæðutryggingarsjóður í Evrópusambandslöndunum skuli bera 50.000 evrur á hvern innstæðueiganda. (Forseti hringir.) Hvernig túlkar hv. þm. Pétur H. Blöndal þetta mál og telur hann einhverjar líkur á því að (Forseti hringir.) allur pakkinn falli á okkur, eins og ég kýs að kalla það?