138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:12]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vandi Seðlabankans er vissulega mikill og ef ég man rétt raðaði fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þeim vandamálum sem steðja að íslensku þjóðinni í ákveðna röð. Ég held að Icesave-samningurinn hafi þar lent í fjórða sæti yfir þá erfiðleika sem við blöstu, en vissulega er þetta erfitt mál.

Ég hef mjög mikinn áhuga á því að heyra skoðun hv. þingmanns á því sem segir í þessu nefndaráliti samflokksmanna hans, um það að þetta séu mun verri kjör en nú þekkjast á lánsfjármörkuðum í sambærilegum samningum. Hvar eru þá betri kjör og hvaða sambærilegu samninga er verið að vísa í þarna? Þetta skiptir mjög miklu máli, ekki eru menn að fara með fleipur í nefndaráliti, þeir hljóta að geta nefnt einhver dæmi máli sínu til stuðnings.

Þá væri líka mjög forvitnilegt að heyra hvernig 3. minni hluti fjárlaganefndar getur lagt það þannig upp að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. séu að engu orðnir þegar það liggur fyrir að hluti þeirra a.m.k. hefur verið felldur inn í viðauka við samninginn. (Forseti hringir.) Þá eru þeir ekki að engu orðnir.