138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:37]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt því ekki fram að hv. þingmaður hefði látið þau orð sér um munn falla. (Gripið fram í.) Ég get alveg sýnt honum dæmi um það hvar framsóknarmenn hafa talað með þeim hætti í þingsal. Tvö dæmi veit ég um og get sótt og sýnt honum ef hann óskar eftir því sérstaklega hér úr ræðustól.

Hitt er svo annað mál að ég tengdi það við þann málflutning sem var einkennandi í ræðu hv. þingmanns að það væru einhver annarleg sjónarmið sem réðu afstöðu Samfylkingarinnar varðandi Icesave. Svo er ekki. Það er full ástæða til að það sé tekið fram hérna að það er óþolandi að sitja undir ásökunum um föðurlandssvik í þessum sal. Það er ólíðandi og óskiljanlegt með öllu að slíkt skuli látið viðgangast án þess að viðkomandi þingmenn séu víttir.