138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur tekið upp þá hætti hér að kalla Samfylkingu og Vinstri græn Icesave-flokkana og er þetta aldeilis glæsilegt mælskubragð af hálfu þingmannsins. Síðan hefur hann líka sagt að það hafi verið óþarfi og hefði verið óeðlilegt að gera málið pólitískt. Ég kem hér upp, frú forseti, til að benda hv. þingmanni á að málið er hápólitískt. Við stjórnarflokkarnir stöndum hér skítinn eftir Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk upp í ökkla, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) og við skulum fara í upphaf Icesave-málsins, við skulum horfa til einkavæðingar bankanna. Og í sannleiksást sinni og -leit spyr ég hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort hann sé reiðubúinn til að standa með mér að tillögu þess efnis að þingið skipi sjálfstæða rannsóknarnefnd á einmitt einkavæðingu bankanna. (Gripið fram í: Já, og atburðum þessa árs.) Er hv. þingmaður tilbúinn til að standa að slíkri tillögu? (Gripið fram í: Og atburðum þessa árs.)

(Forseti (SF): Forseti vill biðja þingmenn um að vera ekki að grípa mikið fram í heldur gefa ræðumönnum hljóð til að tala úr pontu Alþingis.)