138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú hlustað á ræðu ég veit ekki númer hvað hjá hv. þingmanni um Icesave. Hann er Icesave-kóngur þingsins að mér skilst í ræðutíma.

Það sem mig langaði að gera, virðulegi forseti, er að spyrja hv. þingmann hvort hann geti upplýst okkur hér í þingsal og þá sem hlusta um hver var viðskiptaráðherra hér á Íslandi og í hvaða ríkisstjórn þegar Icesave var búið til og því hleypt af stað úti í Bretlandi. Af því að það er stuttur ræðutími í andsvörum (Gripið fram í: Bættu Hollandi við.) langar mig að minna hv. þingmann á að sá sem var þá viðskiptaráðherra varð síðan formaður Framsóknarflokksins um stuttan tíma (Gripið fram í.) og sat í ríkisstjórn sem var stýrt af þáverandi forsætisráðherra sem hét Halldór Ásgrímsson. Spurning mín til viðkomandi hv. þingmanns er sem sagt þessi: Hver var viðskiptaráðherrann sem hleypti Icesave-málinu af stað í Bretlandi?