138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:51]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Afgreiðsla Icesave-frumvarpsins markar ákveðin tímamót í því viðreisnarstarfi sem hófst í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar hér fyrir rétt tæpu ári. Óhætt er að fullyrða að fáar ríkisstjórnir ef einhverjar hafi glímt við jafnrisavaxið verkefni og það sem núverandi ríkisstjórn glímir við. Mikill niðurskurður í ríkiskerfinu hefur verið óhjákvæmilegur og sömuleiðis umtalsverðar skattahækkanir samhliða breytingum á skattkerfinu sem enn eru á byrjunarstigi. Samhliða margvíslegri tiltektarvinnu sem heyrir til hruns á fjármálakerfi heillar þjóðar hefur þurft að fara fram heildarendurskoðun og uppstokkun á samfélagsgerðinni. Það er að sönnu risavaxið verkefni.

Icesave-frumvarpið er lokapunktur ákveðinnar tiltektar eftir það sem allir eru nú orðnir sammála um að voru ár gegndarlausrar óráðsíu og ábyrgðarleysis, einhvers konar brunaveisla með rómverskum blæ. Hrunadans, mundu einhverjir segja. Íslendingar, eða þeir sem birtust öðrum þjóðum sem Íslendingar á erlendum vettvangi — andlit Íslands í erlendum fjölmiðlum — lifðu í vellystingum, keyptu upp gömul og rótgróin fyrirtæki, skemmtu sér með stórstjörnum, kepptu í kappakstri glaumlífsins og stjórnmálin dönsuðu með, stór hluti þeirra að minnsta kosti. Það er hægt að undanskilja afar fáa, hægri menn og vinstri menn sáu ekki stöðuna fyrir glysinu. Þetta er hægt að fullyrða án þess að bent sé fingri. Vinstri grænir voru sannarlega ekki í stjórn á þessu tímabili en Sjálfstæðisflokkurinn var það í mörg ár, Framsóknarflokkurinn í mörg ár og Samfylkingin síðasta eitt og hálfa árið.

Með lúkningu Icesave-málsins lýkur stórum hluta starfa þingsins vegna hrunsins þó að vissulega sé niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis vegna hruns bankanna á könnu þingsins. Icesave markar tímamót. Hér er ögurstundin upp runnin, ögurstund sem á sér vart samjöfnuð í íslenskri sögu, risavaxin ábyrgð sem bundin er von og bjartsýni að hluta því að endanleg niðurstaða ræðst af verðmæti eigna Landsbankans og hvernig til tekst með sölu þeirra þó að vísbendingar um heimtur séu vissulega jákvæðar. Um leið er um að ræða siðferðileg reikningsskil þess tímabils sem gert verður upp með rannsóknarskýrslu þingsins að forminu til. Afgreiðsla Íslendinga á alþjóðlegum skuldbindingum vegna Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eru skýrustu skilaboð þeirra stjórnmálamanna sem á þingi sitja um það hvernig þjóðfélag og samfélag verði byggt upp hér á Íslandi eftir hrunið, skilaboð utan lands jafnt sem innan lands um heiðarlegt samfélag. Orðstír manns lifir og deyr með því hvernig hann stendur við skuldbindingar sínar. Við getum með sanni sagt að okkur hafi ekki verið kunnugt um þessa ábyrgð okkar. Ég vissi ekki um hana, virðulegur forseti, fjöldi þeirra sem eru þingmenn í dag vissi ekki um hana, almenningur var grunlaus og ég hef efasemdir um að bankamenn hafi í raun og veru gert sér grein fyrir afleiðingunum enda get ég varla ætlað mönnum slíkt ábyrgðarleysi. Þessi er staðan.

Ef við neitum að gangast við ábyrgð okkar verður það dómur alþjóðasamfélagsins, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að Íslendingar standi ekki við skuldbindingar sínar. „Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur.“ „Íslenska leiðin“ verður það þá kallað að borga ekki skuldir sínar. Það verður túlkunin. Það skiptir litlu máli hversu oft framsóknarmenn fara til Noregs, það breytir þessu ekki. Virðulegur forseti. Þetta er það sem ég óttast mest, því hvað erum við Íslendingar á alþjóðavettvangi án ærunnar, án mannorðsins, ef það orð fer af okkur að við greiðum ekki skuldir okkar? Þó að margumtalaðir spunameistarar Samfylkingarinnar séu að mati stjórnarandstöðunnar með alla fjölmiðla heimsins á sínum snærum er engu að síður við ofurefli að etja.

Skyldi það hafa legið til grundvallar ótrúlegri framkomu Breta gagnvart okkur þegar sett voru á okkur hryðjuverkalög að framganga okkar í breskum viðskiptaheimi hafði ekki beinlínis einkennst af hógværð og kurteisi heldur einhverju allt öðru og miklu verra? Það skyldi þó ekki vera, án þess að það skipti í sjálfu sér nokkru máli. Ekki dæmum við Breta út frá þeirra allra verstu sonum eða dætrum. Framganga Breta í okkar garð í þessu máli er enn með öllu óútskýrð og órökstudd, eins og segir í ágætu minnisblaði fyrrverandi utanríkisráðherra. Sumar nýlenduþjóðir hafa engu gleymt og ekkert lært. Mér hefur stundum þótt við sýna Bretum ótrúlega linkind í því að halda við þá stjórnmálasambandi, jafnömurlega og smásálarlega og ríkisstjórn Gordons Browns veittist að 300 þúsund manna þjóð á úrslitastundu. Þeir kusu að sparka í liggjandi. Sagan hefur reyndar sýnt að þeir eiga ekkert í okkur öðruvísi. Framganga þeirra var þeim til minnkunar. Á ögurstundu eru helmingslíkur á réttri eða rangri ákvörðun og þeir tóku ranga ákvörðun. Afleiðingarnar af því að samþykkja ekki Icesave-ábyrgðina, jafnömurlegt og það er að standa frammi fyrir því, eru svo alvarlegar að ekki er hægt að horfa fram hjá því.

Ég hef farið yfir afleiðingarnar af skoðun alþjóðasamfélagsins á Íslandi, sem er erfitt að meta til upphæðar í peningum en getur þó reynst það skeinuhættasta. Tökum með í reikninginn frestun á annarri endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með tilheyrandi seinkun á afgreiðslu lána frá sjóðnum og vinaþjóðum. Afleiðing þeirrar frestunar mundi jafnframt leiða til þess að ekki yrði hægt að styrkja gjaldeyrisvaraforðann sem er nauðsynleg forsenda afnáms gjaldeyrishafta. Einnig mundi slík töf draga úr tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda með tilheyrandi lækkun á lánshæfismati ríkissjóðs og þar með neikvæðum áhrifum á möguleikum innlendra aðila til endurfjármögnunar. Minnkandi trúverðugleiki og tafir á afnámi gjaldeyrishafta munu auka þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar sem aftur leiðir til vaxandi verðbólgu sem þýðir að Seðlabankinn gæti jafnvel þurft að hækka vexti eða hefði í það minnsta ekki svigrúm til að lækka þá. Þá hefur þess verið getið hér í umræðunni að frestun eða synjun frumvarpsins hefur neikvæð áhrif á endurfjármögnun lána ríkis, sveitarfélaga og orkufyrirtækja.

Afleiðingarnar af því að hafna frumvarpinu eru svo alvarlegar að það er útilokað að stjórnarandstöðunni sé alvara í málflutningi sínum enda talaði hluti hennar allt öðruvísi í þessu máli þegar hann var við stjórn landsins. Sjálfstæðismenn undirbjuggu málið ásamt Samfylkingu á síðustu mánuðum síðasta árs og skuldbundu landið pólitískt til þess að leysa það með þeim hætti sem nú er verið að gera. Hér birtist því vilji stjórnarandstöðunnar þeim sem hér talar þannig að í raun og veru sé enginn áhugi á því að ríkisstjórninni takist að leiða þetta mál til lykta. Það sem vakir fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar er fyrst og fremst að flækjast fyrir, (Gripið fram í: Rangt.) tefja málið og gera ástandið erfiðara í þjóðfélaginu í þeirri von að ríkisstjórnin hrökklist frá og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geti tekið aftur við völdum. Icesave-málið yrði síðan leyst á einni nóttu í spjalli á milli forustumanna flokkanna rétt eins og þegar ákvörðunin var tekin um stuðning Íslands við árásarstríð úti í heimi. Hvað skýrir annars viðleitni sjálfstæðismanna til að vinna að öllum þeim fyrirvörum sem gerðir voru í sumar og standa enn að stærstum hluta en sitja síðan hjá við afgreiðslu eigin vinnu? Hvað skýrir framgöngu framsóknarmanna í þessu máli annað en að vilja með öllum mögulegum og tiltækum ráðum koma ríkisstjórninni frá? Framganga forustu Framsóknarflokksins í þessu máli gengur langt út yfir allt velsæmi enda er sá fornfrægi flokkur undir stjórn manna sem fundu flokkinn á götu í reiðileysi og hirtu án aðdraganda og þyrstir í frekari völd.

Sögulegt tækifæri fór forgörðum í þessu máli. Þingið hefði getað tekið þetta mál í sameiningu alla leið en um leið og Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá við afgreiðslu málsins í sumar var ljóst að samstarfsviljinn var yfirskin, sáttatónninn var falskur, nýja Ísland var í átökum við gamla Ísland, sérhagsmunir gegn almannahagsmunum. Hvað skóp kaupæðið í kringum bankana? Í stuttu máli ókeypis kvóti fárra útvalinna sem seldur var dýrum dómum og nýttur til bankakaupa í hefðbundnum helmingaskiptum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, lánað úr fyrri bankanum til kaupa á hinum síðari, pappírsleikfimi og skuldavafningar. Nú skal vinstri stjórninni komið frá, skuldum við útlendinga sópað undir teppi og góssinu skipt upp á nýtt.

Á Íslandi er ríkisstjórn sem er velviljuð, sanngjörn við atvinnulífið, keppir að stöðugleika og öruggri framtíð. Henni er umhugað um félagslegt réttlæti og jöfnuð og í henni sitja reyndustu stjórnmálamenn þingsins. Hún tók við í kjölfar búsáhaldabyltingar í kosningum þar sem báðir flokkar bættu umtalsvert fylgi sitt og fjölguðu sínum þingmönnum. Samfylkingin skorast ekki undan ábyrgð sinni en úrslit kosninganna sýndu best hverjir almenningur taldi að bæru mesta ábyrgð á hruninu. Þeir sem töpuðu mestu fylgi, það segir sig sjálft. Þeir vilja samt völdin. Í ríkisstjórninni ráða gamalreyndir herforingjar þar sem hver stund, hver mínúta og hvert korter í 30 ár í stjórnarandstöðu, kosningum, átökum þvert á flokka og innan þeirra gagnast þeim í stærsta verkefni íslenskrar sögu, endurreisn samfélags og siðferðilegum reikningsskilum þjóðarinnar. Auk þeirra er þingmeirihluti upp á 34 með allan þunga sögunnar á herðunum. Hvert nafn sem meitlað í stein um ókomna tíð, þeir sem samþykktu Icesave. Tveir gamalreyndir herforingjar sem nýta hverja stund, hverja mínútu, hvert korter í samanlögðum 60 ára reynslubanka til að takast á við aðsteðjandi vanda á ögurstundu og valkosturinn sem telur sig geta gert betur eru stjórnarandstöðuforingjar með uppréttar hendur sem hafa verið landsfeður í korter.

Þetta eru þung skref og stór, ögurstund í dag og á morgun og um ókomna tíð. Skylda okkar er fyrst og fremst gagnvart þjóðinni, það er á þeim grunni sem afstaða mín er mótuð. Afgreiðsla Icesave-samningsins er nauðsynleg og mál að linni og ganga til atkvæðagreiðslu. Ég tel að úr því sem komið er verði ekki unnt að ná betri samningi og að höfnun hans feli í sér svo alvarlega áhættu að við hana verði ekki unað. Ég er reiðubúinn að lúta dómi sögunnar vegna þessa. Sagan mun dæma okkur í vil sem gerðum skyldu okkar gagnvart þjóðinni.