138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aðeins að reyna að átta mig á þeirri hugmynd sem hefur komið fram, ekki bara hjá hv. þm. Róberti Marshall heldur öðrum hv. þingmönnum líka, að það að sjálfstæðismenn hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna breyti einhverju um niðurstöðuna. Eru menn í fullri alvöru þá að halda því fram að ef Sjálfstæðisflokkurinn — sem greiddi atkvæði með fyrirvörunum og sat síðan hjá — hefði greitt atkvæði með hefði það mál haldið? Breyttu menn málinu til að refsa Sjálfstæðisflokknum eða hvað er málið?

Ég spurði hv. þingmann: Hvað breyttist? Hér stóðu hv. þingmenn Samfylkingarinnar upp og sögðu: Þingið hefur talað. Nú förum við og segjum viðsemjendum okkar: Svona er þetta. Vissu menn ekki hvað þeir voru að tala um? Þeir sögðu að þetta væri innan samkomulagsins.

Svo er líka hitt, þ.e. að þessu máli sé ekki lokið. Ég held akkúrat að þarna komi það sem liggur að baki. Menn vita að við getum ekki staðið undir þessu eins og það liggur fyrir núna. Þessi leið er ekki fær en menn trúa því að þetta reddist einhvern veginn. (Forseti hringir.) Það er það sem menn eru að gagnrýna varðandi barnalega trú á Evrópusambandið, að Evrópusambandið reddi okkur einhvern veginn. (Forseti hringir.) Það gerist ekki. Þegar við erum búin að skrifa undir þetta skuldum við þessa fjármuni.