138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:08]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér tíðkast oft sá siður í þinginu að menn geri þeim sem menn ræða við upp ákveðnar skoðanir og rökræði síðan við þá á grundvelli þeirra skoðana. Hvergi hef ég sagt að Evrópusambandið muni koma okkur til bjargar í þessu máli eins og hv. þingmaður hélt fram, ekki nokkurs staðar, og fór síðan í rökræðu við mig um þá staðreynd.

Hins vegar hef ég haldið því fram og sagði það hérna áðan að mér fyndist að vinna ætti áfram að málinu á vettvangi Evrópusambandsins. Ég vil líka segja vegna þeirra fyrirvara sem sjálfstæðismenn komu vissulega að í sumar og samþykktu en sátu síðan hjá við afgreiðslu málsins, að þeir segja í þessu framhaldsnefndaráliti að þeir efnahagslegu fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst sl. séu að engu orðnir. Það er alrangt. (Gripið fram í: Nei.) Stór hluti þessara fyrirvara eru felldir inn í viðauka samningsins. (Gripið fram í: Um hvað?) Það er því ranglega farið með staðreyndir í framhaldsnefndarálitinu.