138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað og reyna að svara spurningu minni. Honum er tíðrætt um orð sem 10. kafli hegningarlaganna fjallar um og ágætt að það komi frá þessum aðilum það orð sem ég ætla ekki að bera mér í munn að þessu sinni.

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skyldi meðal annars afsala okkur skaðabótakröfu vegna beitingar hryðjuverkalaganna því að það eru miklir fjármunir sem liggja þar undir og hefur margoft verið bent á það. Það er búið að loka samningnum. Um leið og atkvæði verða greidd um frumvarpið er búið að loka þessum samningi og hann verður ekki tekinn upp, þingmenn verða að átta sig á því. Málinu er lokað og ríkisábyrgð er ekki breytt eftir á enda væri þá tilgangslaust að veita ríkisábyrgð.

Svo eru líka þau ákvæði sem eru svo alvarleg og ég fer yfir í ræðu minni í kvöld eða á morgun eftir því hvernig tími gefst til: Hvað finnst þá þingmanninum um það að ríkisstjórnin er líka að afsala sér friðhelgisréttindum (Forseti hringir.) þjóðarinnar og aðgangi að náttúruauðlindum okkar með þessum samningi?