138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kvartar yfir því að ég hafi komið hér inn í miðja ræðu hjá honum og ekki hlustað. Það getur vel verið að ég hafi farið á mis við eitthvað þegar ég gekk hér ganginn á milli, en get þó gert þingmanninum það til geðs að hlusta á ræðu hans á netinu eins og hann getur gert við þær spurningar sem ég spurði hann. Það væri mjög áhugavert ef þingmaðurinn mundi upplýsa þjóðina um skoðanir sínar og Samfylkingarinnar á þessu.

Hann kom hingað upp og sagði að menn hefðu ítrekað komið hingað og sagt frá skoðunum sínum. Það er ekki rétt. Ég held að almennt hafi skort á það að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi komið hingað upp og ítrekað skoðanir sínar til þess einmitt að reyna að selja þær skoðanir, til þess að reyna að efla þjóðarvitund um að þetta sé rétt leið. Það eru nefnilega í það minnsta 70% sem eru á þeirri skoðun að svo sé ekki.

Í andsvörum sínum áðan kom þingmaðurinn inn á að málinu væri hvergi lokið, það mætti taka það upp aftur. Mig langar að spyrja hann hvort hann sé á þeirri sömu skoðun og hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður fjárlaganefndar að hægt sé að taka málið upp og semja (Forseti hringir.) betur á nýjan leik, hvort hv. þingmaður telji ekki að það væri gáfulegast (Forseti hringir.) að semja nægilega vel núna svo að við þurfum ekki að taka málið upp aftur (Forseti hringir.) og semja að nýju.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)