138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei sakað hæstv. utanríkisráðherra um að tala ekki máli Íslands, það hef ég aldrei gert. En það sem ég sagði í ræðu minni áðan var að þegar menn standa í milliríkjadeilu sem þessari er í hæsta lagi barnalegt að ætla að þegar menn eru búnir að setja lög frá Alþingi við samningana eða skrifa undir samninga við Breta og Hollendinga — hæstv. fjármálaráðherra skrifar undir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, hann gerir það, hann fær leyfi hjá öllum ráðherrum til þess nema einum. (Utanrrh.: Það getur ekki verið.) Hann skrifar undir, það þarf enginn að segja mér, hæstv. utanríkisráðherra, að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki fengið samþykki hjá öllum hinum hæstv. ráðherrunum. Hann skrifar undir samkomulagið (Gripið fram í.) og við sjáum þetta alveg fyrir okkur, það þarf ekkert að fara í — (Utanrrh.: … samkomulagið við Breta stoppað?) Hæstv. fjármálaráðherra skrifar undir samkomulagið 5. júní, það er það sem ég er að tala um. (Gripið fram í: Já.) Þegar það er búið koma menn ekki aftur og segja: Bíddu við, hvað gerist nú? Er ekkert að marka þennan hæstv. fjármálaráðherra? Hann skrifar bara undir samkomulagið og svo er ekkert marka það. Svo er farið að vinna í málinu og Alþingi tekur völdin og þegar búið er að setja fyrirvarana er auðvitað, eins og ég sagði áðan, í hæsta lagi barnalegt að halda því fram að það hefði verið einhver von um að fá einhverja vitræna niðurstöðu í málið öðruvísi en að setjast niður á hæsta „level“. Það hefur margoft komið fram að menn leysa ekki svona milliríkjadeilur á „embættismanna-level“, menn verða að færa þetta upp, eins og ég sagði í ræðu minni, til forsætisráðherra og fjármálaráðherra þessara landa. Það gerist með þeim hætti. Það er algerlega útilokað að senda síðan til baka nánast sömu samninganefndina til að kynna það sem var verið að gera og síðan á að skila einhverri niðurstöðu. Auðvitað átti að taka forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna með sér og sýna þeim fram á það hvert … (Gripið fram í.) vegna þess, virðulegi forseti, að Bretar og Hollendingar kúguðu hæstv. ríkisstjórn frá upphafi, (Forseti hringir.) Evrópusambandið líka og allir aðrir. Auðvitað viljum við frekar standa (Forseti hringir.) með hæstv. ríkisstjórn en að berja hér á hæstv. ráðherrum.