Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 12:54:15 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að mörgu leyti mjög málefnalega ræðu og þó nokkurt frávik frá mörgum öðrum ræðum sem fluttar hafa verið um sama mál.

Ég skil þingmanninn svo að hann sé ekki áhugasamur um að fara með málið fyrir dómstóla. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er það skoðun hans persónulega eða er það skoðun flokksins, því að mig rekur minni til þess að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi í ræðu í sumar eða haust fullyrt að best væri að fara með málið fyrir dómstóla því að samningurinn væri það slæmur að málið ætti að fara fyrir dómstóla? Eins og þingmaðurinn benti á í ræðu sinni hefði slíkt í för með sér að við gætum átt það á hættu að greiða 600–700 milljarða kr. til viðbótar því sem við erum nú þegar að standa skil á, þ.e. öllum innstæðunum, ekki bara þeim innstæðum sem nema 20 þúsund evrum. Svo ég ítreka spurningu mína: Er þetta skoðun þingmannsins eða er þetta skoðun flokksins í heild? Það væri ágætt að hafa það á hreinu fyrir áframhald umræðunnar.

Ég vil líka spyrja þingmanninn, þar sem öllum hefur verið ljóst sem að þessu máli hafa komið að Icesave-samkomulagið er nátengt endurskoðun AGS og þeim lánum sem við erum að fá frá Norðurlöndum en okkur tókst að ná í gegn fyrstu endurskoðun á AGS-samningnum á haustmánuðum með þeirri fullvissu að málið mundi fá lúkningu á Alþingi: Telur hann að orsakasambandið þarna á milli sé slitið, að það séu ekki tengsl á milli þess að við klárum Icesave-samninginn hér og nú á næstu dögum á Alþingi og að við höldum áfram uppbyggingarstarfi því tengdu tengt lúkningu Icesave-málsins?