Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 13:00:08 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við töldum að fyrirvararnir í sumar hefðu verið viðunandi sem lágmarkslausn en þeir voru hins vegar ekki neitt samningsatriði. Þeir voru ekki eitthvað sem hægt var síðan að fara með til Breta og Hollendinga og segja við þá: Herrar mínir og frúr. Eigum við ekki að semja um þetta? Eigum við ekki að reyna að sættast á eitthvað aðeins minna?

Alþingi ákvað þetta í sumar, Alþingi setti framkvæmdarvaldinu fyrir með þessum hætti, alveg eins og Alþingi ákvað það 5. desember 2008 að gilda skyldu tiltekin viðmið. Og það er athyglisvert að núverandi ríkisstjórn hefur ekki einu sinni heldur tvisvar farið á svig við nákvæm fyrirmæli löggjafarsamkomunnar. Þetta er mjög alvarlegt mál út af fyrir sig.

Fyrst í haust var sagt: Við skulum fara að semja upp á tiltekin býtti. Komið var heim með samning sem ekki var í samræmi við það. Síðan var ákveðið í sumar að mjög vel yfirveguðu ráði að setja fram tiltekna fyrirvara sem voru fyrirvarar við ríkisábyrgðina en bættu út af fyrir sig ekki samninginn sem var afleitur, sem var samningur sem ríkisstjórnin gerði og ber ein ábyrgð á, og aftur var farið út og samið í blóra við vilja Alþingis. Það er rangt, fyrirvararnir eru ekki inni í því frumvarpi sem við ræðum núna. Það er útþynnt einskis nýt útgáfa af fyrirvörunum sem við erum að ræða hér.

Auðvitað þurfum við að koma efnahagslífinu í gang en gleymum því ekki að forsenda Icesave-samningsins er lágt gengi íslensku krónunnar, forsenda Icesave-samningsins er sú að hér verði lakari lífskjör, minni kaupmáttur. Það er eini möguleikinn til að þessi samningur gangi upp. (Forseti hringir.) Þess vegna er það rangt að Icesave-samningurinn sé forsenda viðreisnarinnar. Hann mun torvelda, hann mun standa í vegi fyrir viðreisninni í efnahagslífinu.