Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 13:49:34 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hafa vissulega mjög margir lögmenn, lögfræðingar og íbúar þessa lands, blandað sér í þessa Icesave-umræðu með greinaskrifum í blöð og umfjöllun um þetta mál. Það verður seint fullþakkað framlag alls þessa fólks til að reyna að koma vitinu fyrir fólk hér í þinginu. Vissulega er farið yfir þessi atriði varðandi tilskipunina í þessari grein og ég er sammála þeirri túlkun. En það er ekki eingöngu það sem kemur fram í grein Magnúsar Inga Erlingssonar í Morgunblaðinu í dag sem styður þennan málflutning heldur er þetta líka gert að umfjöllunarefni í áliti bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya. Þar eru miklir sérfræðingar í breskum rétti á ferð og styður umfjöllun þeirra þennan málflutning. Þess vegna er það hálfgrátlegt að menn hafi ekki enn þá skilið þennan punkt hér í ríkisstjórnarliðinu, eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni, augunum er einfaldlega lokað fyrir þessari staðreynd. Ríkisstjórnarliðar hafa sagt að Bretar og Hollendingar hafi ekki samþykkt að þetta sé svona. Að sjálfsögðu samþykkja þeir það ekki vegna þess að þeir eru að reyna að halda sínum hagsmunum á lofti. Það er okkar að halda hagsmunum Íslendinga á lofti. Þetta er grundvallaratriði sem hefði getað kollvarpað því hvernig þetta mál endar ef farið hefði verið eftir Brussel-viðmiðunum sem samþykkt voru þar sem það var staðfest að Evrópusambandið var tilbúið til að vera milliliður í að reyna að leiða þessa milliríkjadeilu til lykta á farsælan hátt. En ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki fara þá leið. Þeir vildu leggjast flatir fyrir því að vissulega ætti innstæðutryggingartilskipunin við. Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir gleymdu þessum rökum algerlega.