Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 14:05:01 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Tvívegis hefur það gerst frá því að Icesave-málið kom fram á Alþingi að farið hefur verið á svig við skýran vilja Alþingis þegar Alþingi hefur reynt, með mjög ákveðnum hætti, að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Tvívegis hefur það gerst að framkvæmdarvaldið og ríkisstjórn Íslands hefur virt að vettugi skýran vilja löggjafarsamkundunnar, æðstu stofnunar íslenska lýðveldisins. Þetta er eiginlega það dapurlegasta við Icesave-málið. Þetta er eiginlega það versta við málsmeðferðina sjálfa, að Alþingi skuli ekki hafa náð tilætluðum árangri þegar það hefur reynt og gert skýra kröfu til þess að ríkisstjórnin bregðist við fyrirmælum Alþingis með ákveðnum hætti.

Hið fyrra sinn var 5. desember 2008 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um það hvernig halda skyldi á samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Um það þarf ekki að fjölyrða að eftir þeim fyrirmælum var ekki farið í þeirri samningsgerð sem í hönd fór. Það var ekki farið eftir mjög afdráttarlausum fyrirmælum Alþingis. Í hið seinna sinn var það í sumar eftir að Alþingi hafði fengið í hendur ómögulegan samning fyrir íslenska þjóð, gersamlega óviðunandi samning. Þá greip Alþingi til þeirra ráða sem það hafði, að takmarka þá ríkisábyrgð sem ríkisstjórnin hafði ekki nokkurt leyfi til að setja fyrir skuldum sem þarna lágu undir.

Ég hef fylgst mjög náið með þessu máli allt frá því að það kom hingað inn á þingið, tekið þátt í því að móta þá fyrirvara sem samþykktir voru í sumar eftir þrotlausa vinnu þingmanna. Þessir fyrirvarar eru allir roknir út í veður og vind og það er rangt af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að koma því inn hjá þjóðinni að svo sé ekki, það er rangt. Þeir eru allir roknir út í veður og vind, í þeim er ekkert hald. Eftir stendur ríkisábyrgð fyrir óskilgreindri upphæð sem að lágmarki er 800 milljarðar íslenskra króna. Það kom fram á minnisblaði Seðlabanka Íslands sem lagt var fyrir fjárlaganefnd sama dag og á sama fundi og málið var rifið út úr nefndinni. Þá lá á borðum þingmanna í fjárlaganefnd minnisblað frá Seðlabanka Íslands þar sem stóð að skuldir íslensks þjóðarbús séu nú 320% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2010 og Icesave-skuldin standi í 800 milljörðum kr. Ekki var viðlit til þess af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar að lengja þann fund til að fara yfir þetta álitaefni og það er miður.

Brátt líður að lokum þessa máls og senn verða greidd um það atkvæði. Þá mun koma í ljós hver niðurstaða málsins verður. Ég hygg að ríkisstjórnin hafi nú gert það sem hægt er til að knýja málið í gegn og það verður að sjálfsögðu á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar að gera það og það verður að sjálfsögðu hún ein og það verður engin önnur ríkisstjórn eða aðrir sem bera ábyrgð á þessum samningum. Það verður ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem gerir það.

Ég hef verið mjög hugsi yfir þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar. Ég veit að mörgum þykja menn svartsýnir. Ég vil segja að menn vilji þá kannski ekki hlusta á raunsæisraddir. Ég vil segja það enn og aftur, ég held að ég hafi sagt það í hverri einustu ræðu sem ég hef haldið um Icesave-málið, að ég trúi á framtíð íslensku þjóðarinnar. Ég hef alltaf trúað á framtíð íslensku þjóðarinnar og ég mun alltaf gera það.

Í Tímariti Sögufélagsins , sem kom út nú á dögunum, er talað nokkuð um stöðu Íslands á fyrri tímum og hvernig við höfum ávallt komist upp úr miklum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar eru að mörgu leyti ískyggilegri en þær efnahagsþrengingar sem nú standa fyrir dyrum. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að verulega sé vegið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar þá áttum við í ógurlegu harðræði á fyrri öldum. En hvernig skyldum við hafa komist í gegnum það, Íslendingar? Með þeirri óbilandi trú sem hefur einkennt þessa þjóð — sú trú má aldrei bila — og líka með mjög skýrri leiðsögn hjá þeim sem hafa leitt þjóðina.

Ég er eiginlega hálfmiður mín þegar ég stend á þessum lokametrum Icesave-málsins og hugsa til þess að okkur hefur mistekist það sem við reyndum í sumar þegar við reyndum að líta á þetta mál öðrum augum en við lítum önnur mál. Ég er sammála þeim sem hafa haft þá skoðun uppi að Icesave-málið sé ólíkt öllum öðrum málum að því leyti til að það varðar allt annars konar hagsmuni. Hér erum við ekki að takast á um hægri-mennsku og vinstri-mennsku. Hér erum við að takast á um það hvernig Íslendingar ætli sér að borga þær skuldir sem á þá hafa verið lagðar. Hvernig ætlum við að gera það? Þegar allt kemur til alls má borga ýmsar skuldir en við þurfum að velta því fyrir okkur hverju við þurfum að fórna til að borga þessar skuldir?

Hvað er það sem við ætlum ekki að gera til að greiða skuldina? Hvað er það sem við ætlum ekki að gera til að greiða skuld við Breta og Hollendinga sem þeir hafa með yfirgengilegri frekju sinni skellt á íslenska þjóð? Þegar menn eru að tala um að veifað hafi verið einhverjum minnisblöðum frá því síðasta haust þá segi ég: Auðvitað veifa þeir öllum hugsanlegum minnisblöðum og gera hvað þeir geta til að fá okkur til að skrifa undir þessa óþurftarsamninga. En við eigum ekkert að gefa eftir gagnvart því og áttum aldrei að gera það en það gerðum við og það er slæmt. (Gripið fram í: Ekki við.) Það gerði sú ríkisstjórn sem hér situr, undir forsæti hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur verið svo afskaplega upptekin að hún hefur vart mátt vera að því að fylgjast með þessu, sem vekur náttúrlega verulega furðu þegar um er að ræða forustumann í ríkisstjórn sem er að taka á sig ríkisábyrgð upp á 800 milljarða íslenskra króna, sem eru tæplega tvöföld fjárlög ríkisins.

Varðandi það hvað við ætlum ekki að gera til að borga þessa skuld þá skulum við gera okkur grein fyrir því að þessi skuld er í erlendri mynt. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við þurfum að afla tekna til að borga þessa skuld. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að hún verður ekki borguð nema menn fari strax í það að auka framleiðslu í þessu landi. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að gera það. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að auka gjaldeyristekjurnar svo það sé þá einhver vonarglæta til að afla frekari tekna til að borga skuldina. Nei, þeir ætla ekki að gera það. Og hvað ætla þeir þá að gera? Væntanlega þurfa menn þá bara hreinlega að draga úr innflutningi. Menn þurfa að draga úr innflutningi og treysta á það að íslenska krónan verði áfram lág. Þeir þurfa að draga úr innflutningi á vörum sem við þurfum á að halda til að reka íslenskt samfélag. Það er það sem við gætum þurft að horfast í augu við og það er það sem ég vil að þingmenn ræði. Ég vil að menn ræði það hvernig við ætlum að borga þessa skuld ef menn eru ákveðnir í því að það sé nauðsynlegt að leggja hana á þjóðina, skuldbindingu sem fullkominn vafi er um hver er. Engu að síður ætla menn að leggja hana á íslenska þjóð.

Ég hélt að við gætum sameinast um að verjast því ofríki sem á okkur hefur dunið en það hefur mistekist. Okkur hefur mistekist það sem við ætluðum að gera og ég er miður mín yfir því, algerlega miður mín yfir því að þetta sé niðurstaðan. Ég vil hreinlega ekki trúa því að á morgun ætli alþingismenn að greiða atkvæði um það að setja ríkisábyrgð á skuld einkabanka sem stendur í 800 milljörðum kr. upp á von og óvon um það hvenær upp færist þær eignir sem Landsbankinn á, við vitum ekki einu sinni hvenær hægt er að byrja að greiða. Því var haldið fram í sumar að hægt væri að setja þá innstæðu sem væri á Bank of England tafarlaust inn á skuldina, innstæðu sem er vaxtalaus í Bank of England, vaxtalaus. Það er ekki verið að bjóða okkur nein kjör þarna í Englandi. Þeir heimta 5,55% vexti af okkur og græða stórkostlega á vaxtamun og síðan sitja þeir með okkar upphæð vaxtalausa í Englandsbanka og það var talað um að sú upphæð skyldi náttúrlega fara rakleiðis inn á skuldina en auðvitað var það ekki hægt. Því var mótmælt þegar þessu var haldið fram. Það er ekki hægt að taka peninga úr þrotabúi fyrr en búið er að gera það upp og á meðan mun þessi upphæð, veruleg upphæð, liggja vaxtalaus í Englandsbanka. Ég hef ekki orðið vör við það að menn hafi verið að mótmæla því sérstaklega eða reynt að gera einhverjar ráðstafanir til að fá því breytt. Ég hef ekki orðið vör við það.

Í fyrrnefndri skýrslu Seðlabanka Íslands kemur fram að það gæti dregist nokkuð að peningar fáist úr þessu þrotabúi. Og við vitum það náttúrlega, við sem höfum verið að véla um þetta mál, að ágreiningur um kröfurnar er verulegur. Menn munu láta reyna á það og það mun taka ákveðinn tíma og meðan svo er verður ekki greitt inn á þessar kröfur. Og meðan það er þá höldum við áfram að safna vöxtum sem skipta verulegum upphæðum, vöxtum sem ekki verður hægt að gera grein fyrir í fjárlagavinnunni, vöxtum sem okkur munar hressilega um að borga til viðbótar við annað það sem við þurfum að greiða í tengslum við þetta ólukkumál. Ég held að menn ættu að velta þessu fyrir sér þegar þeir hafa tekið ákvörðun um að styðja þetta mál og halda því fram blygðunarlaust að það að bæta þessari stórfenglegu skuld við aðrar skuldir þjóðarinnar muni flýta fyrir endurreisninni. (Gripið fram í: Nei, nei.) Það er bara ekkert annað. Það mun hreinlega flýta fyrir endurreisninni að demba þessari stórfenglegu skuld á þjóðina. Þá mun ljómandi margt gerast sem verður svo ljómandi gott, lánshæfismat, allt mögulegt mun gerast.

Ég bendi á að það átti líka að gerast snemma á þessu ári þegar mikið gekk á til að losa sig við Davíð Oddsson úr Seðlabanka Íslands. Þá átti líka allt að fara að gerast. Það átti líka að gerast þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu. Ég man ekki betur en svo að það hafi verið sérstaklega tekið fram í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra að með aðildarumsókn mundi allt fara að gerast. Ég hef ekki orðið vör við það. Það átti líka að gerast í þessu Icesave-samkomulagi í sumar. Það hefur ekki gerst. Hvenær gerist þetta? (Gripið fram í: Aldrei.) Þegar við erum búin að leggja þessar klyfjar á þjóðina mun allt fara að gerast. Þetta passar ekki. Menn geta ekki haldið þessu fram. Menn geta ekki talað svona og eiga ekki að gera það.

Það sem stendur upp úr er það að Alþingi hefur tvívegis tekið þá afstöðu að þessir samningar — í fyrsta lagi eins og þeir þá voru í burðarliðnum og urðu ekki vegna þess að minnisblaðið er ekki samningur, að það var nauðsynlegt að setja ríkisstjórn ákveðin fyrirmæli um það hvernig halda skyldi á máli, og í öðru lagi í sumar þegar fyrirvarar voru gerðir. Þessu hefur ekki verið fylgt. Það er niðurstaðan og það er sá sári sannleikur sem þingheimur þarf að horfast í augu við. Það er sá sári sannleikur sem alþingismenn þurfa að sætta sig við þegar verið er að leggja þessar klyfjar á þjóðina, að okkur hefur ekki tekist, alþingismönnum, að byggja þær varnir sem nauðsynlegar hafa verið og eru nauðsynlegar fyrir Íslendinga inn í framtíðina.

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skrifar mjög skilmerkilegt minnisblað til utanríkismálanefndar rétt fyrir jólin. Það má segja að það er athyglisvert að þeir samfylkingarmenn sem eru utan þings, eru farnir úr pólitík og eru hættir að skipta sér af, eru með málið og þeir tala og þeir tala skýrt. Það gerir líka Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún hefur verið að lýsa þeirri atburðarás sem var síðasta haust og leiðrétta þann misskilning að menn hafi verið búnir að semja. Menn voru ekki búnir að semja um nokkurn skapaðan hlut. Alþingi hafði aldrei fengið að sjá nokkurn skapaðan hlut, ekki neitt. Það var ekki búið að semja og menn eiga ekki að halda þessu fram vegna þess að það er rangt. En hún hefur fengið málið og hún gagnrýnir ríkisstjórnina og hún gagnrýnir sinn flokk og hún bendir mönnum á að hægt sé að fara aðrar leiðir.

Ég vil líka segja það að ég hef alltaf trúað því og ég mun alltaf trúa því að hægt sé að ná samningum ef menn ætla sér að gera það (Gripið fram í.) — ég held það. En þann samning sem hér liggur fyrir má aldrei samþykkja. Ég kvíði morgundeginum þegar við göngum til atkvæða um þetta ólukkumál og ákveðum, því miður er ég hrædd um, að leggja þessar skelfilegu byrðar á ófædda Íslendinga, nokkuð sem við alþingismenn höfum ekkert leyfi til að gera.