Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 14:20:28 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir afar góða og skilmerkilega ræðu. Maður leggur alltaf sjálfkrafa við hlustir þegar hún talar af því að hún talar svo sannarlega alltaf af þekkingu, enda situr þingmaðurinn m.a. í fjárlaganefnd og veit alveg nákvæmlega um hvað þessi mál fjalla.

Það var m.a. undir forustu sjálfstæðismanna að hér tókst að gera fyrirvara við hinn skemmda Icesave-samning sem þótti glæsilegur óséður þegar hann kom fyrst fyrir þingið og þeir fyrirvarar voru skilyrtir í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 96/2009 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Þarna kemur þetta skýrt fram og ég veit það gegnum vinnu fjárlaganefndar og vinnu þingsins að þetta var það skilyrði fyrir fyrirvörunum því að hér var uppi mikil lagaleg óvissa hvort fyrirvararnir mundu vera inni í samningnum eða ekki.

Svo ber við að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, svaraði mér í andsvari í gær og missti það hálfpartinn út úr sér, því að viðkomandi þingmaður hálfreiddist við andsvar mitt, en þá kom þetta fram, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust […] var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust. Við vissum það nóttina sem þetta gerðist, ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin. Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því.“

Hvað finnst hv. þingmanni um þessi ummæli formanns fjárlaganefndar þar sem hann vissi í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 28. ágúst sl. að Bretar og Hollendingar mundu ekki samþykkja fyrirvarana?