Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 14:45:03 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hennar. Það er alltaf fróðlegt og skemmtilegt að hlusta á hana, enda málefnaleg og sköruleg. Hún kom inn á þá alvarlegu atburði í ræðu sinni sem gerst hafa við 3. umr. og þá er ég að vísa til ummæla hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar.

Þannig vildi til í gær að ég spurði hann út í orð hans við atkvæðagreiðsluna þann 28. ágúst sl. þar sem verið var að samþykkja Icesave-lögin, sem urðu að lögum nr. 96/2009 eins og hv. þingmaður man, þar sem m.a. flokkur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, hafði lagt sig í líma við að gera þá fyrirvara sem settir voru í lögin sem best úr garði, og eins og þingmaðurinn og alþjóð man var það akkúrat skilyrði þess að þessir fyrirvarar mundu halda og það ætti að kynna Bretum og Hollendingum þá til samþykktar eða synjunar.

Með leyfi forseta, sagði hv. þm. Guðbjartur Hannesson í ræðu sinni í atkvæðaskýringu þegar verið var að greiða atkvæði um Icesave-samningana: Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“ Þetta sagði hv. formaður fjárlaganefndar í atkvæðagreiðslunni.

Svo gerist það í gær að hv. formaður fjárlaganefndar fer í andsvar við mig eftir ræðu sína og þá kemur í ljós — ég er með útprentaða ræðu hans frá því í gær — að hann hafði fengið tölvupóst frá málsmetandi mönnum sem sögðu að nú hefði ríkisstjórnin farið yfir mörkin. Svo segir hann: „Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því.“

Hvað finnst þingmanninum um þessar upplýsingar nú þegar hv. formaður fjárlaganefndar viðurkennir að hann vissi í atkvæðagreiðslunni að Bretar og Hollendingar (Forseti hringir.) hefðu þá þegar hafnað fyrirvörunum?