Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 14:47:24 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég hef fylgst með fyrirspurnum hennar til hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, og ég deili hneykslun minni með henni á ummælum formannsins vegna þess að mér finnst, eins og ég fór yfir í ræðu minni, þau lýsa algerri vantrú á verkefninu. Það er það sem er svo sorglegt í öllu þessu ferli vegna þess að við tókum allt sumarið í að sannfæra stjórnarmeirihlutann á þingi um að þetta væri óboðlegur samningur. Samningurinn frá 5. júní væri óboðlegur, hann væri Íslandi um megn. Við lögðum okkur öll fram um það og það var ekki auðvelt verkefni, það var allsendis mjög erfitt verkefni að reyna að koma málum þannig fyrir að fólk sannfærðist, fólk sem var búið að kaupa þennan samning algerlega hráan frá fyrstu tíð og koma með alls konar yfirlýsingar um að samningurinn hlyti að vera góður, einn hv. þingmaður sagði meira að segja að ef hæstv. fjármálaráðherra væri búinn að skipta um skoðun frá því að finnast þetta mál vera ómögulegt og væri farinn að tala fyrir samningnum, þá hlyti hann að vera góður. Þetta voru rökin fyrir því að samþykkja samninginn óbreyttan. Það er sorglegt að hv. þm. Guðbjartur Hannesson, sem átti stóran þátt í því að samkomulag náðist, hafi þá ekki verið að gera þetta samkomulag af meiri einlægni og meiri trú á verkefnið en það að hann sagði í sumar og endurtók það svo við hv. þingmann, að hann hefði enga trú á því að þetta gengi eftir en þessu hefði verið komið inn á einhverjum seinasta næturfundinum til að ná lendingu í málið. Það var aldrei trú á það að þetta yrði að veruleika. Það er þess vegna sem við stöndum hér með málið allt í hnút aftur.