Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 15:40:26 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir framsögu hans. Ég þarf aðeins að rifja upp með þingmanninum hvers vegna þetta skilyrði var sett inn í lögin, í 2. mgr. 1. gr., að kynna yrði breskum og hollenskum stjórnvöldum niðurstöðu þessara fyrirvara og þau skyldu fallast á þá. Það var út af því að umræðan í sumar var þannig að þingmenn treystu því ekki að fyrirvararnir færu inn í Icesave-samninginn og kæmi til ágreinings milli Íslendinga, Breta og Hollendinga mundu gilda um það bresk lög og það var talið að þessir fyrirvarar hefðu ekkert lagagildi í Bretlandi. Við skulum ekki rugla því saman.

Svo kemur hv. þm. Guðbjartur Hannesson hér í gær og segir að eitt af því sem við klikkuðum illilega á hafi verið þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja þetta. Nú er hæstv. ríkisstjórn heldur betur komin með málið (Forseti hringir.) algerlega út af brautinni miðað við það sem rætt var hér í sumar.