Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 15:42:55 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Efnahagslegu fyrirvararnir eru skrifaðir inn í viðaukasamning og ég er þeirrar skoðunar og var það reyndar í sumar þegar við vorum að fjalla um þetta mál í fjárlaganefnd að þeir fyrirvarar sem Alþingi mundi setja í lög ættu að fara inn í viðaukasamning. Þetta var talsvert rætt í umræðu um málið í sumar hvort það yrði gert með þeim hætti, hvort þetta væri gagntilboð eða eitthvað þess háttar eins og það var orðað af sumum. Það var afstaða mín að þetta yrði að sjálfsögðu að skrifast inn í samningana með einhverjum hætti, þannig að fyrir lægi staðfesting frá viðsemjendum okkar um að þeir féllust á þessa efnahagslegu fyrirvara. Ég tel að þeir séu meira og minna allir komnir þarna inn.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, það eru tvö álitamál þarna, annars vegar varðandi ártalið 2024. Um það var reyndar deilt okkar í milli hvaða þýðingu það hefði og hvernig ætti að túlka það ákvæði (Forseti hringir.) eins og það var í lögunum frá 28. ágúst. Og hitt varðandi vextina get ég komið betur inn á í seinna andsvari.