Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 15:44:08 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemst ekki hjá því að það er búið að taka þessa efnahagslegu fyrirvara út þegar sagt er að menn greiði alltaf vexti, alveg sama hvernig ástandið er varðandi hagvöxt. Það er búið að taka út efnahagslega fyrirvara og ártalið 2024 er farið út. Ég verð að viðurkenna að ég heyrði ekki að hv. þingmaður svaraði því hvers vegna menn sögðu hér og hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta væri innan samkomulagsins. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði: Þingið hefur talað, nú fylgjum við þessu eftir. Ég spyr hv. þingmann: Vissu þessir aðilar ekkert um hvað þeir voru að tala? Hvað breyttist? Hittu þeir bara útlendingana og koðnuðu niður? Þeir sögðu algerlega skýrt að þetta væri innan samkomulagsins og þeir sögðu réttilega þá að Alþingi væri búið að tala.