Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 15:47:59 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans orð og vil nota þetta tækifæri og þakka honum fyrir prýðilegt samstarf á vettvangi fjárlaganefndar í sumar að þessu máli. Ég tel, og við erum greinilega ekki sammála um það hvað varðar fyrirvarana, ég ítreka það að ég tel að þeim sé ágætlega fyrir komið í öllum meginatriðum og öllum atriðum sem máli skipta með því að taka það inn í viðaukasamning sem gerður hefur verið og ég tel að þeir haldi þar fyllilega gildi sínu.

Hvort verið er að kúga okkur alla daga, það er alveg ljóst að við Íslendingar höfum verið undir miklum þrýstingi og við höfum verið beitt órétti m.a. innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég tel að framganga ríkja eins og Breta og Hollendinga, sem eru áhrifamiklir innan stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sé mjög ámælisverð þegar beinlínis var reynt að koma í veg fyrir að mál Íslands kæmust þar á dagskrá vegna þess að þetta mál væri óleyst. (Forseti hringir.) Þar voru þeir að mínu mati að fara langt út fyrir öll velsæmismörk í háttalagi í alþjóðasamskiptum.