Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 15:49:13 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einn af þeim fyrirvörum sem breytt var núna við gerð þessa nýja frumvarps er sá sem snýr að svokölluðu Ragnars H. Halls-ákvæði sem fjallar um lagskiptingu krafna út úr þrotabúinu, þ.e. að breski og hollenski innlánstryggingarsjóðurinn fái þá til helminga kröfuna á móti íslenska tryggingarsjóðnum, sem ég er afskaplega ósáttur við að hafi einhvern tíma verið inni vegna þess að það er einfaldlega svo að gerð er að krafa um að farið sé að íslenskum lögum þó svo að það standi reyndar deilur milli íslenskra lögfræðinga um það hvernig hægt verði að skipta þessu, en við ættum þó alla vega að njóta vafans.

Í þessum breytingum og fyrirvörum að sagt er að íslenskir dómstólar verði að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum og niðurstaða þeirra verði að vera í samræmi við álit frá EFTA-dómstólnum. Nú er það svo, virðulegi forseti, að það eru töluverðar líkur á því eða margir hafa haldið því fram að við fáum hugsanlega ekki ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum sem þýðir að þetta mun þá falla inn í samningana og verða úrskurðað af breskum dómstólum hvernig þessu ákvæði verði fylgt eftir. (Forseti hringir.) Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessu og er hann hugsanlega tilbúinn til að styðja það að þá yrði það bara niðurstaða íslenskra dómstóla sem mundi gilda ef ekki fengist ráðgefandi álit frá EFTA?