Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 16:28:54 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hér í seinni ræðu minni í 3. umr. og verða þetta því lokaorð mín, alla vega í umræðunni. En ég á sjálfsagt eftir að taka til máls á morgun með atkvæðaskýringar, svo stórt er þetta mál. Svo dæmalaus samningur liggur hér fyrir undir dæmalaust einkennilegri verkstjórn og dæmalaust einkennilegum vinnubrögðum.

Mörg orð hafa fallið. Menn hafa verið mismunandi bjartsýnir og leyfi ég mér fyrst að vitna í hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði í sjónvarpsviðtali í mars, með leyfi forseta:

„Ég treysti Svavari Gestssyni. Ég veit að hann er að gera góða hluti og ég lofa þér því að það er í sjónmáli að hann landi, og hans fólk, glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur.“

Þannig var þetta. Þetta var sagt í mars og þetta kom hæstv. fjármálaráðherra með heim til landsins og ætlaði að láta þingið samþykkja Icesave-samningana óséða. Nú eru þrír dagar eftir af þessu ári. Við erum enn að ræða Icesave og þetta fólk er enn við stjórnvölinn og það er enn með verkstjórnina eins óhuggulegt og það er að hugsa til þess.

Notaðar hafa verið ýmsar ástæður gegn því að við eigum að samþykkja þessa samninga. Mikið hefur verið um sjónhverfingar, mikið hefur verið um efnislegar útskýringar. Mig langar að grípa niður í viðtal sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason veitti Ríkisútvarpinu þann 18. október 2009 en ég minni á að hann er formaður Heimssýnar sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar segir: „Ásmundur segir að afsögn Ögmundar Jónassonar sem heilbrigðisráðherra hafi sérstaklega styrkt stöðu Íslands í samningaviðræðunum.“ — Þetta var eitt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson var rekinn úr ríkisstjórninni, hann sagði frá því sjálfur svo að það sé á hreinu. Það var ekki til að styrkja samningsstöðu Íslands í Icesave-samningunum að hann sté úr ríkisstjórn. Þetta hefur komið fram, þetta var t.d. eitt af því sem var komið af stað og var forritað í þingmenn stjórnarflokkanna á góðum morgni með þumalskrúfum.

Svo að ég vitni aftur í hv. þm. Ásmund Einar Daðason í þingræðu 8. nóvember. Þar var hann í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Síðan hóta Bretar og Hollendingar því með Evrópusambandið sér við hlið og í skugga Evrópusambandsins að stöðva afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þannig að í mínum huga eru klár og hrein og skýr tengsl Evrópusambandsins við Icesave-málið með þessum hætti.“

Svo mörg voru þau orð. Við skulum átta okkur á því að það eru hrein og klár tengsl þarna á milli, enda tek ég undir hvert einasta orð hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar í þessari ræðu.

Mig langar að fara aðeins inn á það að ýmislegt virðist benda til að einhvers misskilnings gæti með einhverja fyrirvara. Ég ætla að minna hv. þingmenn á það, eins og ég þurfti að minna hv. þm. Árna Þór Sigurðsson á áðan, að fyrirvararnir og þessi 2. mgr. 1. gr. kom því fyrst og fremst inn í lögin að Bretar og Hollendingar þyrftu að samþykkja þessi skilyrði og þá fyrirvara sem við settum inn til að Bretar og Hollendingar mundu líta á það sem hluta af samningnum því að við stjórnarandstöðuþingmenn vorum svo hræddir um það í sumar að Bretar og Hollendingar mundu hirða ríkisábyrgðina og skilja fyrirvarana eftir fyrir utan og segja: Þetta er ekki inni í Icesave-samningunum þess vegna gilda fyrirvararnir ekki fyrir breskum rétti. Þannig er það til komið en ekki með þeim hætti að það hafi ekki orðið lagasetning eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fullyrti í ræðu áðan enda eru þau frumvörp sem nú liggja fyrir breyting á lögum nr. 96/2009.

Engin ríkisstjórn má afsala þjóð sinni dómstólaréttindum og lagasetningarvaldinu. Það hefur þessi ríkisstjórn nú gert. Ég vísa allri ábyrgð á Icesave-málinu yfir á vinstri velferðarríkisstjórnina. Skömm þeirra er mikil og á eftir að fylgja þeim út lífið. Ég hef barist með íslensku þjóðinni í þessu máli en 70% hennar eru á móti Icesave-samningnum. Það er ekki hægt að tala um sátt með þessum samningi. Ég trúi á íslenska þjóð. Þjóðin á að njóta vafans í þessu máli. Ég segi nei við Icesave. Ég segi nei, nei, nei. Það er ekki hægt að leggja þetta á komandi kynslóðir.