Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 17:04:49 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir hennar ræðu. Ég var búin að tilkynna það áðan að ég ætlaði ekki að tala meira í þessu máli en málið er það stórt að ég get ekki orða bundist. Þar sem þingmaðurinn er lögfræðimenntuð langar mig til að spyrja hana hvort hún hafi ekki kynnt sér grein eftir Magnús Inga Erlingsson í Morgunblaðinu í dag sem ber heitið „Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum“ þar sem hann fjallar um að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum samþykki hvorki íslenska né evrópska löggjöf og vegna þess að samkeppnislög Evrópusambandsins banna ríkisábyrgð á einstaka innstæðutryggingarsjóði, eins og kom svo margoft fram í máli mínu og fleiri í sumar.

Þess ber að geta að þessi greinarhöfundur er héraðsdómslögmaður og með meistarapróf í Evrópurétti þannig að hann ætti að vita hvað hann talar um. Það er spurning um það hvort þingmaðurinn vill aðeins tjá sig um þetta því að þetta er upphafið að Icesave-málinu, að okkur ber ekki lagaleg skylda til að standa í skilum með þetta.

Þar sem þingmaðurinn er varaformaður Sjálfstæðisflokksins langar mig til að spyrja einnig út í orð hv. formanns fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, þegar hann átti orðastað við mig í gær. Ég vissi að sjálfstæðismenn lögðu mikið af mörkum til að koma þeim fyrirvörum á koppinn sem fóru inn í lögin um ríkisábyrgð í sumar. Þá taldi hann, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust hef ég áður sagt í umræðunni að það var eitt sem við klikkuðum illilega á, það var þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust.“

Svo heldur hann áfram með þetta svar og upplýsir mig og þingheim um það í gær í þessu andsvari að hann hafi fengið tölvupósta aðfaranótt 28. ágúst, þegar lögin voru samþykkt hér, þar sem Bretar og Hollendingar töldu að þarna væri of langt gengið, að þingið hefði farið fram af brúninni og að (Forseti hringir.) Bretar og Hollendingar mundu ekki ganga að fyrirvörunum. (Forseti hringir.) Var ekki verið að blekkja bæði þing og þjóð?