Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 17:14:08 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að eftir alla þessa umræðu um Icesave-málið á maður nokkuð erfitt með að finna viðeigandi orð um það sem fram undan er, þ.e. atkvæðagreiðsluna sem verður á morgun og hvaða niðurstaða það er sem verður líklegt að muni líta dagsins ljós. Það er erfitt vegna þess að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir er sérstaklega kveðið á um það að við Íslendingar samþykkjum ekki að okkur beri skylda til að greiða þá skuld sem kölluð er Icesave-skuldin. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu sem hér er um að ræða. Á sama tíma leggja þeir sem flytja frumvarpið það til að veita ríkisábyrgð fyrir þeirri skuld. Við segjum með öðrum orðum: Við eigum ekki að borga, okkur ber ekki skylda til þess en við ætlum samt að borga, við ætlum samt að veita ábyrgðina.

Hvers vegna, herra forseti? Það er vegna þess, og það hefur komið fram með skýrum hætti m.a. hjá hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra, öðrum hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum stjórnarliðsins, að að okkur steðjar ógn. Þegar saman er lagður annars vegar sá kostnaður sem óumflýjanlega mun lenda á íslensku þjóðinni, sem skiptir hundruðum milljarða, og sú hætta sem við okkur blasir gangi hótanir Breta og Hollendinga eftir, þ.e. ef við greiðum ekki, þá meta menn það þannig að betra sé að fallast á að borga þrátt fyrir að við séum sannfærð um að okkur beri ekki lagaleg skylda til þess, og hafa reyndar verið færð fyrir því mjög rík og gild lögfræðileg rök að svo sé ekki og a.m.k. að mikill vafi sé þar um.

Gangi það fram sem menn reikna með að muni gerast, að ríkisstjórnin hafi meiri hluta í þessu máli, þá erum við að fallast á að við séum kúguð til að greiða þessa skuld. Það er vegna þess að við erum beitt ofríki og hótunum. Það er mergur þessa máls. Menn geta rifist endalaust um hvort okkur beri lagaskylda til þess eða ekki en það stendur í frumvarpinu sem hér er til afgreiðslu að við játumst ekki undir slíka röksemdafærslu. Það verður að lögum gangi frumvarpið fram. Það eru ömurleg örlög sem bíða þá þeirra hv. þingmanna sem ætla sér að segja já við frumvarpinu að með því eru þeir að fallast á það að við eigum að sætta okkur við þessa kúgun.

Hver er kúgunin? Það hefur komið fram aftur og aftur í máli hæstv. ráðherra og hv. þingmanna stjórnarliða að þvílík vá sé fyrir dyrum ef ekki verður sagt já strax við þessu frumvarpi, við Icesave-skuldbindingunni, að allt muni fara í baklás ef ekki verður orðið við kröfum Hollendinga og Breta. Strax í sumar var sagt að það frumvarp sem þá lá fyrir þinginu væri svo gott og samningurinn svo góður að það væri glapræði að segja ekki já strax þannig að málið væri, eins og kallað var, úr heiminum. Því fylgdu líka þær skýringar að ef ekki yrði strax sagt já þá gætu menn afskrifað það að fá nokkurn tíma lán frá Norðurlöndunum sem miklu máli skipti að við fengjum, það væri klárt að ekki yrði um neina endurskoðun að ræða af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ekkert væri hægt að gera í því að endurskipuleggja og endurstofna banka á Íslandi, ekkert væri hægt að gera þegar kæmi að því að hjálpa til í fjármálum heimilanna með skuldaaðlögun og öðrum slíkum aðgerðum, það væri í raun og veru stóra stoppið sem við stæðum frammi fyrir. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir talsmenn ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarmeirihlutans á þinginu hvernig allar þær hótanir hafa gengið eftir sem settar hafa verið fram. Það er líka mikið umhugsunarefni fyrir íslenska þjóð að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að forusta þjóðarinnar skuli ekki við þessar alvarlegu aðstæður hafa beitt sér fastar og af meiri ákveðni en gert var. Ég ætla ekki að draga úr því að allir þeir sem að þessu máli hafa komið hafi reynt að vinna sína vinnu eftir bestu getu. Það þarf enginn að efast um það.

Herra forseti. Enn og aftur. Eftir stendur sú umræða og sú spurning hvernig á því standi, í ljósi langrar sögu, áratugalangrar sögu, samstarfs okkar við hin Norðurlöndin, að enn skuli hanga yfir okkur einhvers konar umræða um það að Norðurlöndin séu að festa lánsloforð sín við það að við lútum vilja Breta og Hollendinga. Reyndar er alveg merkilegt að sjá hvernig sú umræða hefur þróast vegna þess að þeir hafa keppst við það, forustumenn á Norðurlöndunum, að sverja slíkt af sér. Enn á ný hljótum við að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra Íslands geri gangskör að því að kalla með formlegum hætti eftir svörum frá Norðurlöndunum vegna þess að ef þetta mál verður látið standa svona, herra forseti, þá mun það verða blettur á samstarfi Íslendinga við Norðurlandaþjóðirnar. Og er þá með engum hætti dregið úr þakklæti okkar og ánægju yfir því að Norðurlöndin skuli þó vera tilbúin til að veita okkur lán.

Í ljósi langrar og farsællar sögu er það ekkert sem við getum sætt okkur við að þær kröfur séu gerðar af hálfu þessara ríkja að við lútum vilja Hollendinga og Breta og stefnum efnahagslegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í tvísýnu. Í þeirri umræðu sem hér hefur verið undanfarnar vikur, sem margir leyfðu sér að kalla stórkostlegt málþóf, að það væri verið að traðka á lýðræðinu, hefur þó loksins tekist að kalla fram mat á þeirri áhættu sem við Íslendingar göngumst undir með því að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Þegar menn skoða það mat kemur í ljós að hætta er á því að íslenska ríkið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna þess að það reynist um of að greiða þessar Icesave-skuldir.

Þegar menn segja hér í þingsal, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, að þessar skuldir séu eins og aðrar skuldir og leggja að jöfnu við ýmsar aðrar skuldir sem íslenska ríkið er nú þegar í ábyrgð fyrir þá verða menn að athuga að á bak við margar þær skuldir sem ríkið glímir við eru framkvæmdir og eignir sem við höfum náð að búa til á móti. Við höfum ráðist í framkvæmdir og fengið að láni fé erlendis til að fara í vegaframkvæmdir, hafnir, brýr o.s.frv., byggja upp okkar skólakerfi, allt það sem við þurfum að gera. En í þessu máli er um að ræða peninga sem við skuldum ekki og munum væntanlega samþykkja á morgun að við skuldum ekki. Það sem meiru skiptir, þetta er í erlendri mynt. Þetta er ekki í íslenskum krónum. Við eigum að borga í erlendri mynt og í því er gríðarleg áhætta fólgin eins og kom fram í því áliti sem stjórnarandstaðan þurfti að berja í borðið til að kalla fram. Hún þurfti að berja í borðið til að kalla fram það sjálfsagða mat sem hefði átt að liggja fyrir fyrir löngu svo að við þingmenn gætum myndað okkur afstöðu út frá því. Ríkisstjórnin hefði átt að hafa forgöngu um að slíkt mat lægi fyrir.

Herra forseti. Það er erfitt að velja þessu hæfileg orð. Þegar grannt er skoðað og þegar menn skoða það lagaumhverfi sem er utan um tryggingarsjóðsstarfsemina á Evrópska efnahagssvæðinu blasir það við að það getur ekki verið þannig að ríkisábyrgð sé með þeim hætti sem verið er að reyna að pína okkur til að viðurkenna. Ef svo væri er hruninn grundvöllur þess að eitthvert jafnræði sé með fjármálastofnunum á hinum evrópska markaði vegna þess að þá er gríðarlegt samkeppnisforskot hjá þeim bankastofnunum og fjármálastofnunum sem koma frá stórum löndum sem hafa mikla ríkissjóði til að styðjast við gagnvart fjármálastofnunum sem koma frá smáríkjum eins og okkur Íslendingum sem hafa lítinn ríkissjóð. Það sér það hver maður að það getur ekki gengið upp að um einhverja eðlilega samkeppni sé að ræða, enda væri það ríkisstyrkt samkeppni. Allt það sem menn ræða um slíka sjóði núna og þær endurbætur sem þurfi að gera á því kerfi sem Evrópubúar búa nú við lýtur einmitt að þeirri hugsun.

Við hljótum að spyrja, herra forseti: Ef það var svo augljóst að við Íslendingar bærum þessa ábyrgð, að íslenski ríkissjóðurinn væri í ábyrgð, hvers vegna í ósköpunum er það þá þannig að við þurfum að vera að ræða einhverja sérstaka löggjöf um að ábyrgð sé þar að baki? Ef það var svo augljóst hví þarf þá að setja lög um slíkt? Má það ekki vera ljóst að þar með hefði átt að fara af stað einhver sá ferill sem hefði tryggt að hægt væri að ganga að ríkissjóði Íslands? Nei, það er ekki svo. Það þarf til alveg sérstaka löggjöf. Það þarf vilja Alþingis Íslendinga til að gangast í slíka ábyrgð. Á sama tíma, herra forseti, er málum þannig háttað í umræddu frumvarpi að þar er sérstaklega tekið fram að við eigum ekki að borga, það er alveg sérstaklega tekið fram, það er það sem gerir þetta mál svo hörmulegt.

Við sjálfstæðismenn sögðum í sumar, þegar samningurinn kom fyrst til þingsins, að hann væri illa gerður, hann væri hættulegur fyrir íslenska þjóð og það mætti ekki skrifa undir hann. Hæstv. fjármálaráðherra og helstu forustumenn ríkisstjórnarinnar á þingi mæltu mjög fyrir því að þetta væri góður samningur sem við ættum að samþykkja. Og það virðist alltaf vera skoðun stjórnarmeirihlutans hér á þingi að þetta séu allt góðir samningar. Svo urðu þau undur og stórmerki að til varð meiri hluti á þinginu þegar alþingismenn fóru að kafa ofan í þennan samning og utanaðkomandi sérfræðingar komu að málinu og sýndu fram á augljósa galla í honum. Þá vann þingið það verk sem því bar, að breyta þessu samkomulagi. Auðvitað er það sérstakt og óvenjulegt og óvanalegt að Alþingi eða löggjafarsamkoma breyti slíkum gjörningi og má alveg jafna því við að menn semji einhliða. En það var nauðsynlegt vegna þeirrar stöðu sem upp var komin, vegna þess samnings sem ríkisstjórnin illu heilli kom með inn í þingið og allir áttuðu sig á að var ekki nægilega góður og var hættulegur fyrir Ísland.

Þrátt fyrir að menn rífist um það hvort þeir fyrirvarar sem settir voru þann 28. ágúst sl. séu nægilega sterkir áfram í þessu frumvarpi eða ekki — hvað varðar efnahagsfyrirvarana er ég þeirrar skoðunar að svo sé ekki og tel það reyndar augljóst mál — þá eru flestir þó sammála um að málið er í það minnsta skárra í þeim búningi sem það nú er en það var þegar það kom fyrst til þingsins. Þann samning kynnti hæstv. fjármálaráðherra fyrir þinginu með orðum sem hann dró svo til baka þegar hann áttaði sig á að þau voru engan veginn við hæfi. Í ljósi alls þessa, í ljósi þess hvað Alþingi Íslendinga reyndi þó að gera þann 28. ágúst, í ljósi þess að við settum lög sem drógu línu í sandinn og sögðum: Hingað og ekki lengra, við getum ekki skuldbundið þjóð okkar með ríkari hætti en hér um ræðir. Okkur ber ekki að greiða þetta en við viljum ná pólitískri lausn í málinu af því að við teljum það mikilvægt, það er þess vegna sem við vorum tilbúin til þess í ágústmánuði að gera slíkt samkomulag, neyddumst til að gera það allt að því einhliða vegna þess að ríkisstjórnin kom með ónýtan samning til þingsins.

Nú, herra forseti, stöndum við í ekkert ósvipuðum sporum og við gerðum í ágúst. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem er ekki nægjanlega gott. Það er hættulegt íslenskum hagsmunum. Það hefur verið sýnt fram á það af fræðimönnum sem hafa skoðað þetta mál að ástæða er til að ætla að gangi hlutirnir okkur í óhag í efnahagsþróuninni geti sú staða myndast að efnahagslegu sjálfstæði Íslands sé stefnt í voða. Við þær aðstæður, herra forseti, er nauðsynlegt að þingmenn taki höndum saman, þingmenn á löggjafarsamkundunni og búi svo um hnútana að ekki verði tekin áhætta með efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Við höfum ekkert leyfi til slíks. Þeir fyrirvarar sem við settum í ágúst voru að okkar mati nægjanlegir til að tryggja það. Það er ekki hægt að víkja frá þeim fyrirvörum og þess vegna hljótum við að fella frumvarpið á morgun.