Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 17:37:48 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þá er komið að lokum þessarar umræðu, ég er að halda seinni ræðu mína í þessum fasa og síðan verður gengið til atkvæða. Icesave-málið er eiginlega þrungið af nauðung og þrýstingi og alls konar leynd bæði hér á landi og erlendis.

Það kom fljótlega í ljós þegar Íslendingar leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þar átti að neyða okkur. Það kom líka fljótlega í ljós þegar Íslendingar sneru sér til vina sinna í Evrópu að þar var líka nauðung. Af hverju var nauðung? Vegna þess að þær þjóðir óttuðust um traust sparifjáreigenda á innlánskerfi sín. Jafnvel Norðmenn stóðu með Bretum og Hollendingum í kröfu þeirra á að Íslendingar greiddu, sennilega vegna þess að þeir gerðu sér ekki grein fyrir hvað þetta gæti orðið þungbært fyrir Íslendinga.

Menn hafa haldið því fram að búið hafi verið að semja. Hvers vegna þurfti þá að semja aftur, herra forseti, ef búið var að semja? Af hverju var skipuð ný nefnd, af hverju var farið í nýja samninga? Það var vegna þess að það var ekki búið að semja um eitt eða neitt, það þurfti því að semja aftur. Og það var gert aftur undir nauðung, frá Norðurlöndunum varðandi lánafyrirgreiðslu og eins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og frá Evrópusambandinu sem stóð í því að kúga, allir þessir aðilar stóðu í því að kúga Íslendinga til þess að bjarga trausti sparifjáreigenda á innlánstryggingakerfið í Evrópu.

Framkvæmd þessa máls í efnahags- og skattanefnd er orðin þekkt, þar var málið rifið út. Það var beðið um umsögn efnahags- og skattanefndar frá hv. fjárlaganefnd og þar átti að fá áhættugreiningu á vandanum og hún kom ekki og þá var málið rifið út og aldrei rætt. Mér skilst að í hv. fjárlaganefnd hafi það heldur ekki verið rætt. En samkvæmt áhættugreiningu frá IFS Greiningu segja þeir með varfærnu mati að það séu 10% líkur á því að íslenska þjóðin verði gjaldþrota.

Nú getur vel verið, herra forseti, að ýmsir þingmenn líti á það sem ósköp ómerkilegt ef íslenska ríkið verður gjaldþrota og geti ekki borgað — en það er ekki ómerkilegt. Það er afskaplega alvarlegur hlutur. Sumir hafa sagt: Við tökum bara ríkisábyrgðina til baka. Hvers lags er þetta, er þá ekkert að marka þessa ríkisábyrgð? Fyrir mér er ríkisábyrgð eitthvað sem menn snúa ekki með til baka, alls ekki, aldrei.

Erlendir greinendur segja að það séu um 20% líkur á gjaldþroti, einhvers staðar þar um bil. Það vill svo til, herra forseti, að í rússneskri rúllettu þar sem eitt skot er í sex skota hylki eru líkurnar 16% á því að verða fyrir banaskoti. Þetta er þá svipað, líkurnar á þessu, og í rússneskri rúllettu. Þetta eru menn að kalla yfir íslenska þjóð algjörlega vitandi vits hvað þeir eru að gera. Það getur vel verið að þetta gangi vel, ég hugsa að það séu svona 50% líkur á því að þetta gangi vel, en það eru líka kannski 10–20% líkur á að þetta fari mjög illa.

Daniel Gros benti á að ekki sé jafnræði á milli innlánstryggingarsjóða. Bretar og Hollendingar láni sínum sjóðum, þ.e. Bretar láni með 1,5% vöxtum að hámarki, sem mundi svara á Íslandi til 1 milljarðs, og Hollendingar lána vaxtalaust. En þegar þeir lána innlánstryggingarsjóði á Íslandi, sem er líka á EES-svæðinu, er það með miklu hærri vöxtum. Það er ekkert jafnræði þarna, það er ekkert jafnræði innan EES-svæðisins eins og á að vera. Þeir eru einmitt að gera kröfu til þess að við borgum út af jafnræði, þannig að þetta er allt saman á sömu bókina lært.

Ég hef flutt fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, breytingartillögu um að þetta mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég er spenntur að sjá hversu mikil lýðræðisást Vinstri grænna og Samfylkingarinnar verður af því að þeir hafa margoft lagt til að stærri mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef eitthvert mál er stærra en þetta þætti mér gaman að sjá það.