Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 18:02:20 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í gagnkvæmar þakkarræður en ég þakka hv. þingmanni engu að síður fyrir samstarfið.

Annað sem lítið hefur verið rætt er áhættan af verðbólguþróun í Bretlandi. Ef mikil og safarík verðbólga verður í Bretlandi hækkar álið okkar og fiskurinn. Íslenskir skipstjórar og aðrir sem hafa áhuga á þeim málum átta sig á þessu. Þá hækkar verðið á fiskinum og álinu og við fáum meira í pundum fyrir túristana sem koma til Íslands. Það þýðir að við eigum auðveldara með að borga af láninu. Nú þurfa Íslendingar, ef þetta verður samþykkt, að leggjast á bæn og biðja þess að myndarleg verðbólga verði í Bretlandi. Hins vegar ef það andstæða gerist, eins og gerðist frá 1921–1934 þegar verðhjöðnun var í 14 ár í Bretlandi — það var 3% verðhjöðnun, vörur urðu alltaf ódýrari og ódýrari. Álið og fiskurinn ódýrari og ódýrari — ef sú staða kæmi upp aftur þyrfti að borga sífellt meira, við fengjum færri pund fyrir fiskinn og álið en þyrftum alltaf að borga jafnmikið af pundum fyrir lánin. Þá yrðu raunvextir 9% af þessu láni og gersamlega óbærilegir. Skuldin mundi tvöfaldast í verðmæti, mælt í tonnum af áli og fiski, fram til ársins 2016 þegar við byrjum að borga. Við mundum skulda tvöfalt fleiri tonn af fiski og áli árið 2016 ef sú staða kæmi upp eins og var frá 1921–1934 í Bretlandi. Þetta hefur lítið verið rætt og ég vildi gjarnan fá álit hv. þingmanns á þessu, hvernig við getum haft áhrif á verðbólgu í Bretlandi þannig að hún verði safarík og myndarleg.