Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 18:22:56 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er einfalt að svara, forustumenn ríkisstjórnarinnar komu og kynntu gerðan hlut. Það var afskaplega óskynsamlegt. Það sem gerðist — og ég vek athygli á að það voru ekki bara stjórnarandstæðingar sem töluðu með þeim hætti, það voru ekki síst stjórnarliðar sem komu og sögðu í ágúst að þetta hefði verið mikill sigur fyrir þingið og bæri þess merki hve þingið væri sterkt. Og menn unnu saman, trúðu mér, virðulegi forseti. Ég, eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, var skammaður af mörgum fyrir það að hjálpa ríkisstjórninni, bjarga ríkisstjórninni, eins og það var orðað. Hvernig dettur ykkur í hug að bjarga þessu liði sem er algjörlega á kafi í eigin klúðri? Það var sagt við okkur.

Þetta var ekki hefðbundin stjórnarandstaða, alls ekki. Í öðrum löndum við eðlilegar aðstæður hefði hæstv. fjármálaráðherra þurft að segja af sér og hugsanlega forsætisráðherra líka í kjölfar þess að koma með mál eins og þetta sem hafði ekki meiri hluta í þinginu. Það liggur fyrir að það hafði verið hávær krafa um að ríkisstjórnin færi frá eftir að menn komu og höfðu ekki meiri hluta í þinginu. Stjórnarandstaðan íslenska spilaði þetta ekki þannig og við unnum með stjórnarliðum við að reyna að komast að góðri niðurstöðu.

Sá maður sem hér var að koma inn, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, kom og hélt hér fína ræðu um að Alþingi hefði talað, nú væru komin skýr skilaboð. Hæstv. forsætisráðherra kom og sagði: Þetta er innan samningsins og það verður ekkert mál að útskýra þetta fyrir aðilum. (Gripið fram í: … fyrir þjóðinni.) Engin svör hafa komið um það af hverju menn töluðu svona þvert gegn betri vitund eða hvort menn vissu ekki betur. En það liggur alveg fyrir að menn komu með gerðan hlut, menn settu ekki (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna í málið fyrr en búið var að klára það.