Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 18:57:32 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Auðvitað er eðlilegt þegar við ræðum málið á síðustu stigum í 3. umr. að hinkrað sé við þannig að hægt verði að sjá hvort þau gögn sem um er að ræða skipti máli í þessu sambandi og það verði leitað eftir upplýsingum um það. Nú vitum við þingmenn sem hér erum staddir í þingsalnum ekki hvort einstökum þingmönnum hafa borist skilaboð um það en það er eðlilegt að þetta sé upplýst. Ég teldi reyndar eðlilegt, ef þetta eru gögn sem menn telja að skipti máli, að fjárlaganefnd fengi það hlutverk að fjalla um þau, að sú nefnd sem hefur fjallað um þetta mál undanfarið hálft ár tæki það til meðferðar á fundi og mæti í sameiningu hvort ástæða væri til þess að breyta stefnu málsins með einhverjum hætti. (Forseti hringir.) Að minnsta kosti er ótækt að upplýsingar liggi fyrir um einhver gögn sem ekki eru komin fram áður en umræðunni lýkur.