Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 22:12:53 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni fjárlaganefndar fyrir að koma hingað og gera þinginu grein fyrir þessum nýju upplýsingum sem þinginu eru að berast núna undir lok 3. umr. málsins og hljóta að vekja okkur til umhugsunar um það hvort fjárlaganefnd hafi kannski ekki verið að flýta sér um of í afgreiðslu málsins, eins og reyndar stjórnarandstaðan hefur haldið fram í allan vetur að það væri undir óeðlilega miklum þrýstingi sem málið væri keyrt í gegnum þingið.

Það kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar að hér væri fátt nýtt á ferðinni í þeim upplýsingum sem um væri að ræða og ég hlýt að gera athugasemd við það. Það eru t.d. nýjar upplýsingar fyrir okkur á þinginu að lögmannsstofan sem ríkisstjórnin leitaði til og treysti á ráðgjöf frá, hafi á sínum tíma metið það svo að íslenska ríkið væri í sterkri lagalegri stöðu til að halda uppi kröfum vegna þess hvernig Heritable bankinn var felldur á sínum tíma. Það eru upplýsingar sem ekki hafa komið fram í þinginu.

Við höfum síðan séð samninginn sem ríkisstjórnin gerði í kjölfarið á þessari ráðgjöf. Þar hefur ríkisstjórnin sérstaklega samið um það við viðmælendur okkar, Breta og Hollendinga, að halda engum kröfum á lofti sem varða þá atburði sem sama stofa hafði sagt að við gætum gert kröfu vegna. Þetta eru auðvitað upplýsingar sem skipta okkur máli vegna þess að við erum m.a. að ræða ríkisábyrgð og fyrst og fremst ríkisábyrgð vegna samninga sem eru að fjalla um svona viðkvæm atriði.

Ég get því ekki fallist á það með hv. formanni fjárlaganefndar að hér sé fyrst og fremst um gamlar upplýsingar að ræða eða eitthvað nýtt sem engu máli skiptir. Allt skiptir þetta miklu máli þegar við metum málið í heildarsamhengi og auðvitað gengur það ekki upp fyrir okkur á þinginu að það skuli vera að koma upplýsingar af slíkum toga á þessu stigi málsins, (Forseti hringir.) daginn áður en atkvæðagreiðsla hafði verið ákveðin um jafnviðamikla þætti og þessir eru.