Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 22:16:59 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Má ég biðja um að hv. formaður fjárlaganefndar ræði það sem máli skiptir, sem eru nýju gögnin. Höfum það alveg á hreinu að ég kem ekki hingað upp til þess að ræða um gögn sem við höfum áður séð. Ég er að tala um þau gögn sem við höfum ekki séð, þau gögn sem bárust frá Mishcon de Reya, lögmannsstofunni sem gaf út lögfræðiálitið sem fjármálaráðuneytið týndi og gleymdi að láta okkur á þinginu hafa fyrr í sumar, ef menn muna eftir því. Það voru sem sagt viðbótargögn frá þessari sömu lögmannsstofu sem við vorum að fá í kvöld, um að þessi stofa hafi veitt ríkisstjórninni — ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar heldur ríkisstjórninni sem var mynduð í febrúar á þessu ári — þá ráðgjöf að hún ætti góða lagalega stöðu gagnvart Bretlandi sem gæti nýst í viðræðunum um lausn Icesave-deilunnar. Sama ríkisstjórn og tók við þessum ráðleggingum gerði samning við Breta og Hollendinga um að halda uppi engum kröfum vegna þessara mála, þar með talið vegna þess hvernig Bretarnir felldu Heritable-bankann með ósanngjörnum og mögulega ólögmætum hætti í Bretlandi. Þetta eru fyrir okkur nýjar upplýsingar og ég frábið mér að formaður fjárlaganefndar komi hingað upp og segi þetta allt saman vera gömul gögn eða gamlar staðreyndir sem við séum löngu búin að fara yfir. Það er ekki þannig.

Það eru líka ný tíðindi fyrir okkur hér á þinginu að atburðarásin hafi mögulega verið þannig að hæstv. utanríkisráðherra, sem sagði okkur á þinginu í sumar að hann hefði aldrei séð álitið frá Mishcon de Reya, hafi mögulega ekki verið kunngert um þær upplýsingar sem við erum hér að fjalla um, þ.e. um þessa sterku lagalegu stöðu, og að það hafi verið fyrir milligöngu formanns samninganefndarinnar að þessu hafi verið haldið til haga vegna þess að þetta voru viðkvæmar upplýsingar. Lögfræðistofan dregur ekki dul á það í þessu bréfi sem barst þinginu í kvöld. Sannarlega viðkvæmar upplýsingar, sannarlega upplýsingar sem þurfti að fara varlega með og mögulega var farið svo varlega með þær að hæstv. utanríkisráðherra hafði ekki einu sinni fengið að berja þær augum. Þetta eru (Forseti hringir.) upplýsingar sem skipta máli og við skulum ræða um það sem er nýtt, ekki það sem er gamalt og áður komið fram, og ekki gera lítið úr því að við (Forseti hringir.) erum nú á versta mögulega tíma að fá ný gögn inn í þingið.