Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 22:24:01 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef svo sem engu að bæta við það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir. Þetta eru hans skoðanir á þessu plaggi. Ég lagði þetta fram eins hlutlaust og ég gat og það er þá í höndum hvers og eins að dæma það. Ég mun ekki geta svarað fyrir samninganefndarfundi eða hver fékk hvaða plagg á hverjum tíma. Það á hv. þingmanni að vera kunnugt ef hann hefur fylgst með að ítrekað hefur verið óskað eftir því að fá fram öll gögn í málinu. Það hefur verið kallað eftir því formlega af þeim sem hér stendur og beðið um það. Það var líka gengið í þetta mál af fullum þunga og mikilli alvöru að ná þessum gögnum. Svo er spurningin, eins og ég segi, hvort við erum komin út yfir öll mörk þegar við erum komin í einhverja rannsóknarvinnu, þegar við erum farin að fá til viðbótar gögn sem send eru til viðkomandi stofu af öðrum aðilum mjög snemma í ferlinu, sem sagt hjá annarri ríkisstjórn. Það var það sem ég var að ræða. Bréfið talar fyrir sig sjálft og hv. þingmaður hefur leyfi til að túlka það á þann hátt sem hann vill.