Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 22:44:30 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:44]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. utanríkisráðherra er kunnugt er ég ætíð hófstilltur í orðum mínum, sérstaklega þegar verið er að ræða jafnviðkvæm og stór mál og hér um ræðir. Það gefur einfaldlega tilefni til þess þó að menn kjósi að fýla grön yfir þeim staðhæfingum sem ég viðhef hér.

Það breytir ekki þeirri staðreynd, þrátt fyrir það sem hæstv. ráðherra sagði, að þetta hlýtur að vera atriði í samningsgerð við Breta sem hægt er að nýta og eflaust hefur verið reynt að nýta það með einhverjum hætti. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur upplýst mig um það að svo hafi verið gert. Við höfum ekkert rætt það neitt sérstaklega. En ég fullyrði að þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það hlýtur að hafa falist í því tækifæri til að knýja Breta til annarrar samningsgerðar en við stöndum frammi fyrir. Í það minnsta er það álit og mat sérfræðinga í breskum lögum, sem ég hef enga ástæðu og enga þekkingu til að draga í efa, að þetta hefði gagnast okkur við slíka samningsgerð. Það er vissulega þeirra sem með samningsgerðina fara að svara fyrir það með hvaða hætti þeir ýta þessu atriði út af borðinu. Það væri þá ágætt að heyra það.

En þetta er ein af meginröksemdunum sem koma fram í áliti Mishcon de Reya fyrir því að okkur hafi gefist tækifæri til þess að vinna betur og taka upp samninga og meginrökin fyrir þeirri tillögu þeirra, sem þeir leggja m.a. upp með, að það ætti að vera mögulegt og gerlegt að taka upp samninga við Breta að nýju.