Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 22:52:54 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á alvarleika þeirra upplýsinga sem voru að berast fjárlaganefnd fyrir um klukkutíma. Ég vil líka taka fram að það var að kröfu meiri hlutans að Indriði Þorláksson var kallaður fyrir nefndina, það var ekki að kröfu minni hlutans í málinu. Það er einfaldlega vegna þess að mikilvægar upplýsingar vantar og mikilvæg gögn sem lögmannsstofa, sem bæði ríkisstjórnin og allir hér sem eiga sæti hafa verið sammála um að leita til, leggur til að komi fram áður en ákvörðun verði tekin í málinu. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að fundi verði frestað og að forseti ræði með formönnum (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna um framhald málsins. Ég held að það sé það (Forseti hringir.) ábyrga í stöðunni.