Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 22:55:37 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Lengi er von á einum. Ég fór fyrr í dag í ræðustól og taldi mig vera að tala mína seinustu ræðu í þessu máli fram að atkvæðagreiðslu en nú er komin upp svo alvarleg staða að maður er hálforðlaus yfir þeim upplýsingum sem voru að berast. Enn eru að berast leyndarskjöl. Enn er leyndarhjúpur yfir Icesave-málinu. Ég spyr: Hvað er eftir? Hvað á eftir að sýna okkur? Ég bið um virðingu fyrir Alþingi. Ég bið um virðingu fyrir íslensku þjóðinni. Ég bið þann forseta sem nú situr í forsetastól að bera virðingu fyrir embætti sínu. Ég bið um að forseti sjái til þess að formenn stjórnarflokkanna hittist tafarlaust og fari yfir þessa nýju stöðu því að ekki er hægt að ganga fram með málið með þessum hætti.