Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:05:25 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alveg sjálfsagt mál að fjárlaganefnd fái öll þessi gögn í hendur enda hefur lögmannsstofan verið að senda þau. En það er mikilvægt að það liggi fyrir, (Gripið fram í.) og það er vonandi að því verði ekki mótmælt, að það eru gögn sem lágu hjá bresku lögmannsstofunni sjálfri, lágu hjá henni og er verið að senda frá henni núna. Að öðru leyti virðist hún, miðað við bréf hennar, vera að vísa fyrst og fremst í eldri gögn málsins, (VigH: Rangt.) samanber tölvuskeyti sem ég sá áðan í hliðarsal með lista yfir nokkurn tug skjala. Ég sá heiti þeirra skjala og dagsetningar á þeim og það voru að uppistöðu til eldri gögn, frá þeim tímum að lögfræðistofan Lovells var að vinna fyrir íslensk stjórnvöld í október, nóvember og desember svo það sé alveg skýrt. Það virðist vera að uppistöðu til þessi mikli fjöldi viðbótarskjala sem lögmannsstofan telur sig hafa undir höndum. Jú, jú, það er að sjálfsögðu fróðlegt að fara yfir það ef menn vilja rifja þá hluti upp að svo miklu leyti sem þeir voru ekki búnir að kynna sér þá áður, en það ættu væntanlega ekki að vera ný gögn, sérstaklega ekki fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem voru unnin í tíð fyrri ríkisstjórnar.