Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:09:15 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar áskiljum okkur sjálf rétt til að meta hvort gögn sem koma fyrir þingið séu mikilvæg í heildarsamhengi hlutanna eða ekki. Það er ekki hlutverk hæstv. fjármálaráðherra að segja okkur hvort ný gögn í málinu skipti máli eða ekki til þess að þingið geti tekið afstöðu til þess ömurlega samnings sem ríkisstjórn hans hefur leitt til lykta og vill fá ríkisábyrgð samþykkta fyrir. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig á Alþingi, sérstaklega ekki þegar menn hafa ítrekað komið fram með yfirlýsingar um að allt sé komið fram í málinu sem máli skipti. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Þannig er það ekki. Að okkar áliti er það ekki þannig. Nú eru að koma fram nýjar upplýsingar, m.a. um að íslenska ríkið eða eftir atvikum bankinn sem var kominn í fangið á íslenska ríkinu hafi haft sterka lagalega stöðu til að höfða mál í Bretlandi. Það hefur ekkert verið gert með það af ríkisstjórninni. Skiptir þetta máli fyrir þingmenn þegar þeir taka (Forseti hringir.) afstöðu til samningsins sem er verið að veita ríkisábyrgð fyrir? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu gerir það það og við látum ekki segja okkur neitt annað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)