Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:13:09 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég skil þetta mál hefur það verið skilanefnda gömlu bankanna að fara í mál vegna aðgerða fjármálaeftirlitsins en stjórnvöld áttu þann kost að láta reyna á stjórnvaldsaðgerðirnar, beitingu hryðjuverkalaganna og kyrrsetninguna. Niðurstaðan varð að gera það ekki. Engu að síður hefur setningu hryðjuverkalaganna verið haldið til haga í samningaferlinu öllu eins og ítrekuð skrifleg gögn staðfesta. Það var notað og gert allan tímann eins og bréf milli samninganefndanna staðfesta, bæði frá því í mars, í maí (Gripið fram í.) og á fleiri tímum þannig að ég hygg að skjalfest gögn sýni að reynt var að vinna fullkomlega eðlilega úr þessu og nota allt sem mátti verða íslenskum málstað til góðs í þessum samningaviðræðum. Ásakanir um annað verða menn þá að rökstyðja með einhverjum öðrum hætti en hér hefur verið gert til að taka mark á því. Annars er það einfaldlega áburður á menn um að þeir hafi ekki reynt að sinna sínum störfum. (Gripið fram í: Í hvaða umboði …?) (Gripið fram í: Mega … kynna sér gögn?)