Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:16:28 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka ósk mína um að hér verði formenn stjórnmálaflokkanna kallaðir saman. Það er alveg sama hvað er borið á borð fyrir Alþingi Íslendinga, það eru allir ruglukollar, það eru allir að ljúga að mati hæstv. fjármálaráðherra, sérstaklega ef það eru sérfræðingar á sviði alþjóðaréttar eða ef ábendingar koma frá útlöndum.

Hvernig er hægt að fara fram með málið með þessum hætti? (Gripið fram í.) Hvernig er þetta hægt? Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra og segist frekar trúa hæstv. utanríkisráðherra en áliti frá breskri lögmannsstofu sem hefur aðstoðað Íslendinga við að finna út úr því hörmungarmáli sem ríkisstjórnin er með á borðum Íslendinga einu sinni enn. Og ekki gleyma því að við eigum víst að greiða atkvæði um þetta á morgun og ríkisstjórnin ætlar að gera þetta að lögum.