Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:18:23 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hérna klukkan 20 mínútur yfir 11 að kvöldi 29. desember að ræða glæný gögn sem komið hafa fram í þessu máli. Það liggur líka fyrir að fleiri gögn eru á leiðinni. Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir okkur, svo maður orði það bara eins og það er: Slakið bara á, þetta er allt á hreinu, ég er með þetta allt á hreinu og klárið þetta bara. Það er nákvæmlega innihaldið hjá hæstv. fjármálaráðherra.

Stóra málið er að í þessum plöggum er fullyrt að trúnaðarmaður hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að fela gögn fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Það er fullyrt og ég vil fá að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra ætli ekki að sjá til þess að þessi samningamaður verði kallaður fyrir fjárlaganefnd og þetta upplýst. Þetta er ekki lítið mál, þetta er ekki ómerkilegt mál, þetta er ekki forsögulegt mál, þetta er mál um það (Forseti hringir.) hvort mikilvægum gögnum hafi verið haldið leyndum fyrir hæstv. ráðherra, hvorki meira né minna. Ég fer fram á að þetta verði upplýst. (Gripið fram í.)