Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:23:58 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé vel við hæfi að hæstv. fjármálaráðherra hafi endað væntanlega sína síðustu ræðu hér um Icesave-málið á þeim orðum að hann hafi engin gögn í höndunum. Það er einmitt stóra vandamálið í þessu. Við sáum ekki þau gögn sem skipta máli við úrlausn þessa máls. Þannig hefur það verið frá upphafi þessa máls, frá því að hæstv. fjármálaráðherra lagði það fram hér 5. júní. Tveim dögum fyrr sagði hann reyndar að formlegar samningaviðræður væru ekki hafnar.

Samninganefndin samdi náttúrlega ekki á tveim dögum, það vita allir. En við stöndum hér núna og ræðum það að eftir fyrirspurn frá einum nefndarmanni fjárlaganefndar hafi borist bréf frá hinni virtu lögmannsstofu Mishcon de Reya, sem hefur aðsetur í Bretlandi. Það er svo merkilegt með það að nú hafa stjórnarliðar keppst við að gera svo lítið úr störfum þessarar stofu að í upphafi málsins, í greinargerðinni með upphaflega frumvarpinu, kom skýrt fram að ríkisstjórnin hefði notið liðsinnis þessarar lögmannsstofu. Það átti sem sagt að vera til þess að styrkja málstað hennar.

Hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir í gríð og erg að hér sé um að ræða gögn sem snerti ekki málið, þau séu frá því fyrir um ári, jafnvel þó að það eina sem ég hef í höndunum gefi til kynna að gögnin séu frá því í mars. Síðan leggur hæstv. fjármálaráðherra sjálfur mat á þessi gögn og segir mér að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. En lögmannsstofan sjálf segir: Þessi gögn skipta máli þegar ákvörðun er tekin í málinu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði líka áðan í ræðu að stjórnarandstaðan hefði frá því í upphafi málsins verið með hávaða og læti og kallað eftir gögnum sem engu máli hafa skipt. Það hefur þó a.m.k. gert það að verkum að öll leynigögnin, ja, reyndar ekki öll en mörg þeirra, hafa komið fram. Þessi leynigögn hafa sýnt að málstaður Íslendinga var góður, hans var bara ekki gætt af samninganefndinni.

Málstaður okkar hefur líka leitt til þess að þjóðin, sem hæstv. fjármálaráðherra treystir ekki til að skilja, er búin að átta sig á því að það er stórhættulegt að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar. Hverjir voru með dómsdagsspár hér frá því um mitt sumar? Jú, stjórnarliðar sjálfir. Hræðsluáróðurinn hefur vaðið yfir land og þjóð. Nú síðast sagði hæstv. fjármálaráðherra að ekki yrði af endurskoðun efnahagsáætlunar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sumir hv. þingmenn meiri hlutans hafa notað þetta í ræðum af því að þeir hafa ekki kynnt sér málið sjálfir og sagt að endurskoðunin muni ekki eiga sér stað. Hún hefur átt sér stað, átti sér stað fyrir nokkrum dögum.

Ef við tökum skref til baka átti eitthvað stórkostlegt að gerast hér 23. október, það var spáð heimsendi. Hvað gerðist 23. október? Man einhver eftir þeim degi? Það bara gerðist nákvæmlega ekki neitt, akkúrat ekkert. En sá dagur er aðeins merkilegur fyrir einar sakir. Það er nefnilega sú dagsetning sem Íslendingar gætu hugsanlega verið dæmir til að greiða vexti frá. En við ákváðum að greiða vexti frá 1. janúar — án skyldu — 30 milljarðar kr., takk fyrir, út af borðinu. Fjárlagagatið er 100 milljarðar kr. Við gáfum þeim 30 milljarða kr., bara sisona. (Forseti hringir.) Og hæstv. fjármálaráðherra bölsótaðist hér áðan yfir því að við hefðum eytt 200 millj. kr. í lögfræðiþjónustu. Við erum að greiða um (Forseti hringir.) 3 milljarða kr. til Breta og Hollendinga (Forseti hringir.) — án skyldu.