Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:29:23 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað til að árétta þá kröfu okkar sjálfstæðismanna að það er afar mikilvægt í ljósi þeirra algjörlega nýju upplýsinga sem hafa birst okkur þingmönnum í kvöld þar sem ráðherrar koma upp í púlt og tauta og raula að haldinn verði fundur í fjárlaganefnd þar sem aðalsamningamaður Íslands verði kallaður fyrir nefndina og hann upplýsi þá málið. Hann verður að upplýsa þingheim um málið. Við erum að fara í atkvæðagreiðslu eftir um 12 tíma og ég tel það ekki ásættanlegt fyrir þingið að við greiðum atkvæði um þetta mál þegar það er í rauninni algjörlega upp í loft og þessi þáttur málsins algjörlega óupplýstur. Gögnum hefur verið leynt gagnvart utanríkisráðherra. Við viljum fá að vita hverju það sætir að samninganefndin hefur ekki haldið uppi ýtrustu hagsmunum Íslands í öllu samningaferlinu. Við viljum fá þetta upplýst. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa okkar sjálfstæðismanna að haldinn verði fundur í fjárlaganefnd og (Forseti hringir.) að aðalsamningamaður Íslands verði kallaður fyrir nefndina.