Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:37:17 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Enn er að koma upp nýtt trix, svo ég sletti aðeins, í þessu Icesave-máli. Það er hreint með ólíkindum að heyra hvernig hæstv. fjármálaráðherra bregst við. Róið ykkur, krakkar mínir, sagði hann næstum því beinum orðum, þetta er stormur í vatnsglasi.

Ég verð að viðurkenna að ég get ekki fallist á þær skýringar hæstv. ráðherra vegna þess að hér kemur fram að aðalsamningamaðurinn sem ég tek undir að verði kallaður á fund fjárlaganefndar segir, samkvæmt þessari bresku lögmannsstofu, að hann treysti ekki ráðherranum sínum, að það eigi að kippa út einhverjum upplýsingum áður en málið er kynnt fyrir ráðherranum, yfirboðara hans. Þetta er algjörlega farsakennt. Það verður, frú forseti, að gera hlé á þessum fundi, kalla fjárlaganefnd saman, kalla formann samninganefndarinnar hingað, kalla hann á fund fjárlaganefndar til að finna hvað er satt í þessu máli. Við erum búin að kalla dálítið mikið eftir gögnum og hæstv. fjármálaráðherra hefur hneykslast á því og talið sig verða fyrir ómaklegum árásum. Það hefði ekki (Forseti hringir.) verið úr vegi ef eins og eitt og eitt minnisblað væri til af þessum fundi sem allir hafa átt. Það mundi kannski skýra málið.