Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 29. desember 2009, kl. 23:45:16 (0)


138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra að formenn flokkanna hér á Alþingi, stjórnmálaflokkanna og Hreyfingarinnar, eru farnir að funda. Hins vegar held ég, frú forseti, að ekki sé tilhlýðilegt að halda hér fundinum áfram á meðan, því eins og fram hefur komið eru hér upplýsingar um ný gögn sem þingmenn verða að fá tækifæri til að fara yfir. Hvað sem þessum fundi líður þurfum við að fá tækifæri til að fara yfir þau gögn sem hafa borist eða eru að berast eftir því sem mér skilst.

Frú forseti. Einnig vil ég koma því á framfæri að skorið verði úr um það hvort sú lögmannsstofa sem hér er vitnað til fari með eitthvert fleipur í því bréfi sem hún sendi. Það er óásættanlegt að vera hér með pappíra í höndunum frá svo virtu fyrirtæki og síðan koma ráðherrar og segja að það sem þar stendur sé ekki satt. (Forseti hringir.) Þetta þarf að kryfja til mergjar, frú forseti, m.a. með því að fá stofuna eða fulltrúa hennar hingað til lands til að ræða við okkur.